Innlent

Glímir við sjomla, sjomlur og allamalla

Una Sighvatsdóttir skrifar
Af hverju heita parísarhjól þessu nafni? Þannig hljóðaði þúsundasta spurningin sem Guðrún Kvaran svaraði á Vísindavef Háskóla Íslands í gær. Samtals hefur Guðrún skrifað yfir 200.000 orð til að svara fróðleiksfýsn landsmanna, eða sem samsvarar lengd fimm doktorsritgerða.  Hún segir þetta mikla vinnu en skemmtilega.

„Ég held ég hafi byrjað í mars árið 2000, þannig að þetta eru nú að verða komin 16 ár. Ég vinn þetta helst svona á laugardags og sunnudagsmorgnum mér til ánægju, með kaffibollann minn og dunda mér í handbókunum hér inni," segir Guðrún, sem skrifar á vefinn samhliða störfum sínum sem prófessor emerita við Stofnun Árna Magnússonar og formaður Íslenskrar málnefndar.

Ráðgátan um Pálínuboðið

Oft þarf Guðrún að grúska töluvert eftir svörum og stundum lendir hún í vandræðum.

„Ein sem ég man eftir var: „Hvað eru sjomli og sjomla?" Og ég varð náttúrulega að leita að því, því þetta var eitthvað sem ég þekkti ekki," segir Guðrún og bætir við að henni berist þó ekki margar spurningarnat um slanguryrði.

„Ég veit ekki hvort einhver annar fær þær, en þær koma að minnsta kosti ekki til mín. Ég er nú komin á eftirlaun, þannig að ég þekki ekki alveg allt sem er í umræðu í þjóðfélaginu. Ég man að ég var spurð að því hver hún er hún Pálína, sem Pálínuboð er kennt við. Og ég hafði aldrei nokkurn tíma heyrt talað um Pálínuboð. Og þá er að leita og leita og leita, og ég fann nú vefnum eitthvað en hver var hún Pálína? Það veit enginn."



Í svari sínu við því hver Pálína í Pálínuboðunum séð leiddi Guðrún líkum að því að þar gæti verið á ferðinni Pálína með prikið.
Staðbundinn orðaforði sérstakt áhugamál

Hennar eigin eftirlætisefni er fremur sérhæft sem ekki mikið er spurt um, en það tengist fyrri vinnu hennar hjá Orðabók Háskólans.

„Það er svona staðbundinn orðaforði. Það er mjög lítið spurt um hann á Vísindavefnum, en það er það sem ég held mest upp á, orð sem eru til kannski bara á Austurlandi, eða í Skaftafellssýslu. Mikið af þessum orðum eru að týnast eða þegar farin, þess vegna þarf að reyna að halda í þau og safna þeim."

Fjölskyldudeilum vísað til Vísindavefsins

Sérsvið Guðrúnar er íslensk tunga og sumar spurningarnar bera þess merki að spretta upp úr deilum í fjölskylduboðum um málnotkun, þar sem Vísindavefurinn er notaður sem úrskurðarvald. Sjálf á Guðrún þó sinn uppáhalds spyrjendahóp.

„Ég sé á sumum spurningunum að þetta eru stálpaðir krakkar eða unglingar, maður sér það bara á stílnum. Og mér finnst mest gaman að svara slíku, því það er svo gaman að sjá að fólk hefur, alveg niður í svna ungan aldur, mikinn áhuga á tungumálinu."

Til í þúsund fleiri svör

Guðrún er þegar byrjuð að brjóta heilann yfir næsta svari, því spurt var „Hvers vegna segjum við allamalla?" Hún getur alveg hugsað sér að svara þúsund spurningum til viðbótar.

„Ef það eru önnur sextán ár þá verð ég nú komin hátt á tíræðisaldur, en það er allt í lagi. Ég held áfram á meðan stætt er."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×