Innlent

Handtekinn fyrir að hringja 50 sinnum í Neyðarlínuna

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Lögreglumenn fóru heim til mannsins og ræddu við hann en hann hætti ekki að hringja í 112 og var því handtekinn.
Lögreglumenn fóru heim til mannsins og ræddu við hann en hann hætti ekki að hringja í 112 og var því handtekinn. vísir/stefán
Lögreglan handtók í nótt mann sem hringdi um 50 sinnum í Neyðarlínuna. Fyrsta hringingin frá manninum barst rúmlega hálftólf í gærkvöldi. Lögreglumenn fóru heim til mannsins og ræddu við hann en hann hætti ekki að hringja og var því handtekinn. Fram kemur í dagbók lögreglu að maðurinn hafi verið í annarlegu ástandi.

Um hálftvö í nótt var svo tilkynnt um þrjá unga drengi sem voru að brjótast inn í bíl ferðaþjónustu fatlaðra í Breiðholti. Skömmu síðar voru þeir handteknir og fluttir niður á lögreglustöð. Einn drengurinn var sóttur af foreldri, farið var með annan til ömmu sinnar og sá þriðji var fluttur á Stuðla.

 

Rúmlega fjögur var svo tilkynnt um innbrot og þjófnað í bíl í Breiðholti en ekki er vitað hverju var stolið.

Um tvöleytið var svo ungur maður handtekinn grunaður um innbrot og þjófnað úr að minnsta kosti tveimur bílum. Maðurinn var í annarlegu ástandi og var vistaður í fangageymslu.

Þá var einn maður handtekinn og vistaður í fangageymslu eftir að hafa veist að dyraverði á skemmtistað í miðbænum.

Tveir voru stöðvaðir grunaðir um ölvun við akstur og einn var stöðvaður grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×