Vegfarandi gerði slökkviliðinu viðvart um reyk frá húsinu um klukkan hálf þrjú í nótt og sendi það bíl á vettvang. Kom þá í ljós að talsverður eldur logaði í húsinu, þar sem dúfurnar voru í búrum.
Slökkviliðsmönnum tókst ekki að bjarga nema nokkrum búrum undan eldinum, sem meðal annars var kominn í þak hússins. Þorvaldur Færseth er einn þeirra sem hefur stundað skrautdúfuræktun í húsinu um árabil.

„Við erum fjórir í þessu húsi sem brann,“ segir Þorvaldur en ræktun hefur að hans sögn verið í húsinu í fimmtán til átján ár. Um er að ræða kynbætur á skrautdúfum þar sem ræktendur reyna að ná fram sýningarstöðlum.
„Það er allt farið. Í mínu tilfelli eru allir fuglarnir farnir. Öll ræktunin. Ekkert eftir,“ segir Þorvaldur í samtali við fréttastofu. Eldsupptök liggja ekki fyrir en Þorvaldur vonast til að upplýsingar þess efnis liggi fyrir síðar í dag. Þá er Þorvaldur ekki viss hvað taki við.
„Það er óséð um það. Það er þungt að fara í að byggja upp húsið aftur. Við eigum eftir að ræða það innan félagsins.“