Innlent

Strætó biður móður með barnavagn afsökunar

Birgir Olgeirsson skrifar
Strætó bauð móðurinni áfallahjálp.
Strætó bauð móðurinni áfallahjálp. Vísir/Egill Aðalsteinsson
Framkvæmdastjóri Strætós Bs. hefur beðið móður afsökunar á því að dyrum á strætisvagni var lokað á barnavagn sem geymdi son hennar í gær. Klara Arnalds hafði lýst því á Facebook í gær þegar hún var á leið í strætisvagn við Lækjartorg í Reykjavík með son sinn í barnavagninum. Þegar hún var komin með tvö dekk upp í strætisvagninn klemmdist barnavagninn þegar dyrunum var lokað og var strætisvagninum ekið af stað.

„Þeir farþegar sem sáu þetta voru sem betur fer fljótir að öskra á vagnstjórann að stoppa og drengurinn fór því ekki langt, en þó nógu langt til að fylla mig einni þeirri mestu skelfingu sem ég hef nokkurn tíma fundið fyrir,“ skrifar Klara.

Hún greinir frá því í dag að Jóhannes Rúnarsson, framkvæmdastjóri Strætó Bs., hefði haft samband við hana og beðið hana innilegrar afsökunar á atvikinu. Sagði Jóhannes við Klöru að í strætisvagninum eigi að vera búnaður sem á að koma í veg fyrir að svona lagað gerist. Svo virðist vera sem sá búnaður hafi ekki virkað og verður málið kannað nánar að sögn Jóhannesar.

Klara sagðist hafa beðið Jóhannes um að skila því til vagnstjórans að hann hefði mátt sýna betri viðbrögð í gær, biðjast afsökunar og athuga með mæðginin. Jóhannes bauð Klöru áfallahjálp sem hún afþakkaði.

Hún hrósaði menntaskólastúlku sem settist hjá henni í strætisvagninum í gær og huggaði hana. „Og fór út einni stoppistöð síðar en hún ætlaði til þess eins að geta hjálpa mér út með vagninn. Þessi fröken er greinilega með hjarta úr gulli og mér þótt verulega vænt um það.“

Update af strætómálinu mikla: Ég fékk rétt í þessu símtal frá Jóhannesi Rúnarssyni, framkvæmdastjóra Strætó, þar sem...

Posted by Klara Arnalds on Tuesday, January 5, 2016



Fleiri fréttir

Sjá meira


×