Innlent

Dagur ókátur með fyrirspurn Sveinbjargar

Jakob Bjarnar skrifar
Ekki verður betur séð en Dagur sé svekktur út í Sveinbjörgu fyrir að spyrjast fyrir um launakjör hans og telur að þar liggi fiskur undir steini.
Ekki verður betur séð en Dagur sé svekktur út í Sveinbjörgu fyrir að spyrjast fyrir um launakjör hans og telur að þar liggi fiskur undir steini.
„Nú á að gera allt tortryggilegt,“ segir Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og vísar í frétt Vísis þess efnis að Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, oddviti Framsóknarmanna og flugvallarvina vilji spyrja um launakjör borgarstjóra.

„Þetta er merkileg fyrirspurn (sem reyndar er ekki komin fram) - en sem sjálfsagt er að svara. En mikilvægt að halda því til haga að hún á rætur í því að ég steig fram fyrir skjöldu fyrir skömmu eftir úrskurð kjararáðs og hvatti Alþingi til að grípa inn í hækkun kjararáðs á kjörum þingmanna og ráðherra – og þar með mín eigin kjör sem miðast við kjör forsætisráðherra,“ segir Dagur í færslu á Facebook-síðu sinni.

Dagur segir það svo að borgarstjóri sé með góð laun og svo hafi verið lengi. Laun borgarstjóra miðast við laun forsætisráðherra og svo hafi verið allt frá því að Geir Hallgrímsson var borgarstjóri í Reykjavík á 6. áratugnum.

Tímabundin afleysing í stjórn Faxaflóahafna

„Ég tel því hækkun launa minna jafngalna og hækkun launa forsætisráðherra skv. úrskurði kjararáðs. Sveinbjörg Birna kallaði inngrip mitt - að stöðva launahækkun til mín og borgarfulltrúa – valdníðslu í borgarstjórn daginn eftir að umræðan hófst. Einmitt. Nú á að gera allt tortryggilegt, m.a. það að ég er að leysa af stjórnarformann Faxaflóahafna í fæðingarorlofi hennar,“ segir Dagur.

Borgarstjóri segir það tímabundna ráðstöfun eins og allir borgarfulltrúar viti. Og þvert á það sem fram kemur í áðurnefndri frétt vísis hafi það verið regla áratugum saman að borgarstjóri ætti sæti í hafnarstjórn og þægi laun fyrir það.

Fær laun fyrir stjórnarformennsku hjá slökkviliðinu

Dagur segir að svo mikilvæg hafi hafnarstarfsemin ávallt verið talin að þetta var lagt af fyrir um 10 árum. Borgarstjóri er jafnframt alltaf stjórnarformaður slökkviliðsins og þiggur laun fyrir það. Og á sæti í stjórn Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, en það er ólaunað.

„Borgarstjórar áttu hins vegar sæti í stjórnum Landsvirkjunar lengi vel – og hafa tímabundið átt sæti í stjórn Orkuveitunnar. Ég hef þó verið þeirrar skoðunar að farsælla sé að sækja fagstjórnendur inn í stjórn OR og hefur það verið stefna núverandi meirihluta.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×