Innlent

Segir borgað með útflutningi kjötsins

Sveinn Arnarsson skrifar
Unnið að því að hreinsa slög í Fjallalambi á Kópaskeri. Fyrirtækið stendur ekki vel.
Unnið að því að hreinsa slög í Fjallalambi á Kópaskeri. Fyrirtækið stendur ekki vel. vísir/pjetur
Fjallalamb hf. hefur óskað eftir hlutafjáraukningu í félaginu til að laga lausafjárstöðu. Björn Víkingur Björnsson, framkvæmdastjóri félagsins, segir síðustu tvö ár hafa verið gríðarlega erfið fyrir afurðastöðvar fyrir lambakjöt og að allur útflutningur sé rekinn með tapi.

Fréttablaðið sagði frá því á dögunum að af rúmum tíu þúsund tonnum sem framleidd eru af kindakjöti ár hvert fari um þrjú þúsund tonn á erlenda markaði.

Björn Víkingur Björnssonright
„Það er offramleiðsla á landinu í dag, það er klárt að mínu mati. Einnig munu nýju búvörusamningarnir taka í burtu einu framleiðslustýringuna sem er í kerfinu og því ekki von á góðu ef áfram heldur sem horfir. Ég gæti trúað því að meðalbændur á okkar starfssvæði, sem er Öxarfjörður og Þistilfjörður, muni tapa um einni og hálfri milljón króna á þessum nýju samningum,“ segir Björn Víkingur.

Frá árinu 2007 hefur framleiðsla á kindakjöti aukist. Um 60.000 fleiri dilkum var slátrað árið 2015 en árið 2006. „Það er taprekstur á öllum útflutningi á lambakjöti í ár. Á meðan krónan hefur styrkst hefur gengi breska pundsins og norsku krónunnar farið niður svo við erum að borga með útflutningi á helstu markaði okkar,“ bætir hann við.

Gunnar Bragi Sveinsson
„Ég ætla að leyfa mér að segja að það er fyrst og fremst verslunin sem stýrir verði til bænda á Íslandi,“ sagði Gunnar Bragi Sveinsson landbúnaðarráðherra í þingræðu í síðustu viku um lækkað afurðaverð til bænda. „Hins vegar er lambakjöt flutt út til Evrópu. Þeir markaðir eins og aðrir hafa reynst býsna erfiðir að undanförnu. Það eru nokkur atriði sem spila þar inn í. Eftirspurnin er einfaldlega önnur,“ sagði Gunnar Bragi.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×