Innlent

Vigdís Hauks telur skuggapenna að baki smes

Jakob Bjarnar skrifar
Sme biður Vigdísi að hætta þessu rugi, auðvitað skrifi hann sína pistla sjálfur.
Sme biður Vigdísi að hætta þessu rugi, auðvitað skrifi hann sína pistla sjálfur.
Sigurjón M. Egilsson, sem jafnan er kallaður sme, fréttastjóri Hringbrautar, fer yfir stöðu mála í Framsóknarflokknum í nýlegum pistli. Og hann telur Bændaflokk Íslands ekki í stuði á aldarafmæli sínu: „Kosningaloforð Framsóknar hafa ekki verið birt. Hver sem þau verða mun skuggi annarra mála hylja þau.“

Hélt að Hringbraut væri góður fjölmiðill

Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, er síður en svo ánægð með þennan pistil og hún hefur hann til marks um að einhver annar en sme sjálfur, skrifi pistlana sem hann er skráður fyrir.

Hún segir samsæriskenningar hafa sprottið upp í kjölfar þess að hún ætli ekki að gefa kost á sér í næstu þingkosningum; „þessi pistill sannar endanlega að Sigurjón Magnús Egilsson skrifar ekki sjálfur pistlana sína - ég gaf fá viðtöl í kjölfar ákvörðunar minnar - en ákvað að fara á Hringbraut því mér finnst þeir vera að gera góða hluti - fór ég vel yfir málin og var einlæg,“ skrifar Vigdís á Facebook-síðu sína nú fyrir stundu.

Fjölmiðlum um að kenna hvernig komið er fyrir þinginu

Og Vigdís heldur áfram:

„Næsta sem ég veit er þetta plott: "...en Vigdís er allt annað mál. Best að láta kenningu flakka. Vigdísi á að hafa verið gerð grein fyrir því að Sigmundur Davíð muni leiða lista í öðru Reykjavíkrkjördæminu og Lilja Dögg Alfreðsdóttir í hinu. Þá hafi hún ákveðið að fara. Enda verið oft áður hafnað af flokknum.“

Kannski eru gæði svokallaðra fjölmiðla ástæða þess hvernig komið er fyrir þinginu ...“

Sennilega er það ekki textagreining sem slík sem leiðir Vigdísi að þessari niðurstöðu heldur vill hún ekki trúa því að Sme sé þessi úlfur í sauðagæru.

Hættu þessu rugli

Sme er ekki skemmt og svarar Vigdísi á athugasemdakerfinu:

„Kommon Vigdís Hauksdóttir. Hvað ertu að gefa í skyn? Auðvitað skrifa ég sjálfur greinarnar mínar. Og að halda að aum staða Alþingis Íslendinga sé annarra verk en þinna og þíns samstarfsfólk er jafn galið og hitt ruglið þitt í dag. Með vinsemd; hættu þessu rugli.“

Sme er víst skemmt

Uppfært 12:30

Eins og fram kemur í athugasemdakerfi, þá hrapaði blaðamaður að ályktunum, það er ekki svo að Sigurjóni hafi ekki verið skemmt, heldur þvert á móti. Er beðist velvirðingar á mistökunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×