Innlent

Gríðarlega mikinn og svartan reyk lagði frá húsinu á Melabraut

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Mikinn svartan reyk lagði frá húsi á Melabraut þar sem eldur kviknaði eftir hádegi en samkvæmt upplýsingum frá slökkviliðinu barst tilkynning um eldinn klukkan 14:10. Nágrannar fundu reykjarlykt, hringdu á slökkviliðið og reyndu að eiga við eldinn með garðslöngu þar til slökkviliðið kom á vettvang.

 

Allt tiltækt slökkvilið höfuðborgarsvæðisins var kallað út en fyrstu bílar komu á vettvang um sjö mínútum eftir að útkallið kom. Var þá sýnilegur eldur á neðri hæð hússins og mikill reykur bæði á neðri og efri hæð. Þá brotnuðu rúður í húsinu.

Rúður sprungu meðal annars í húsinu vegna eldsins.vísir/ernir
Óttar Karlsson varðstjóri hjá slökkviliðinu segir að þegar að tilkynningin barst hafi verið talið ólíklegt að fólk væri inni í húsinu en það var þó ekki öruggt. Reykkafarar fóru því inn til að leita af sér allan grun og reyndist húsið vera mannlaust. 

Segir Óttar að slökkvistarfi sé nú að ljúka, frágangur sé í gangi og verið að tryggja vettvang en lögreglan á höfuðborgarsvæðinu tekur síðan við rannsókn málsins. Ljóst er að mikið tjón hefur orðið og eru miklar reykskemmdir á húsnæðinu. 

Á myndbandinu í spilaranum hér að ofan sést greinilega hversu mikinn reyk lagði frá húsinu vegna eldsins og þá má sjá myndir af því þegar slökkviliðið er nýkomið á vettvang.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×