Arnbjörg Hlíf skrifar hrollvekjandi pistil á Facebooksíðu sína sem hefst svo:
„Nú detta mér allar dauðar lýs úr höfði!! Hér fossar niður í forstofuna einu sinni enn, alltaf þegar farið er í sturtu á efri hæðinni.“
Arnbjörg Hlíf heldur svo áfram og er óhætt að segja að farið hafi um vini hennar við lesturinn:
„Nú ætla ég að segja ykkur sögu - Ég hef átt íbúðina mína í 13 ár, í gömlu reisulegu húsi við Grettisgötuna. Fyrir u.þ.b. tveimur árum síðan keyptu fjársterkir aðilar allar íbúðir hússins nema mína og kjallarann, en hann keyptu þeir nú í haust. Í fyrra voru dópistar með börn á efri hæðinni - ofbeldi og lögregla kvöld eftir kvöld svo vikum skipti.“
Framkvæmdastjóri Móóm er Magnús Pálmi Skúlason lögmaður og hann segir þetta af og frá. Hann segir að þarna hafi búið venjulegt fólk, en þannig sé að hljóðbært sé í þessu timburhúsi og alltaf ef eitthvað heyrðist þá kvartaði Arnbjörg. „Hún hrakti þau úr húsinu. Maðurinn sagði við mig eitthvað á þá leið að það mætti ekki einu sinni rífast við konuna sína, þá væri hringt í lögguna.“
Segir eigendur hvetja leigjanda í leka sturtu
Móóm er fyrirtæki sem meðal annars á og leigir út íbúðir. Samkvæmt fasteignaskrá á Móóm ehf. tvær íbúðir við Grettisgötu 20B og tvær íbúðir í húsinu við hliðina, 20A. Félagið á svo tvö iðnaðarrými við Steinhellu 12 í Hafnarfirði og eina íbúð við Öldugötu í sama bæjarfélagi.
Frásögn Arnbjargar er lengri:
„Þeir vilja líka íbúðina mína en buðu mér slikk sem ég sannarlega sætti mig ekki við, þetta er heimili mitt og dóttur minnar. Áðan bankaði ég hjá leigjandanum á efri hæðinni þegar fór að leka og sagði hún mér þá að þeir hefðu kvatt sig til að nota sturtuna sem oftast. Þeir eru víst ekki tryggðir og tryggingafélagið mitt gerir ekkert þar sem þetta er búið að gerast svo oft án þess að neitt sé gert ofan frá. Græðgi, græðgi og engin siðferðiskennd.“
Vill ekki að íbúðin fari í hendur þessara manna
Þegar blaðamaður fór yfir frásögn Arnbjargar með Magnúsi Pálma segir hann þetta ekki standast neina skoðun. „Fyrst segir hún að við séum fjársterkir aðilar og svo að við höfum ekki efni á að láta laga einhverja sturtu? Eitt sem maður gerir ef maður á timburhús, maður lætur ekki leka. Ég hef farið fjórum sinnum til hennar útaf þessu, látið mynda allar lagnir en við vitum ekki hvað þetta er. Líklega eitthvað að á baðinu. Rangt að hún hafi verið hvött til að fara í sturtu. Þetta er vænsta kona sem býr þarna á annarri hæðinni og ég get fullyrt að það er ekki rétt,“ segir Magnús. Hann segir að deilur við Arnbjörgu hafi staðið lengi.

Buðu 28,5 milljónir fyrir íbúðina
Magnús Pálmi vísar öllu því sem fram kemur í máli Arnbjargar Hlífar alfarið á bug. Það eina sem rétt sé er að það var leki, annað er rangt.
„Þetta er eins mikil afbökun á sannleikanum og mögulegt er. Til eru ástandsskýrslur um húsið. Við létum gera mat á því, og það stendur ekki til að rífa húsið né reka þar hótel. Við ætlum að gera húsið upp, í upprunalegri mynd og hefja til vegs og virðingar,“ segir Magnús Pálmi.
Hann segir að til standi að fara í framkvæmdir í sumar, fáist iðnaðarmenn til þess. Samkvæmt mati kosti 25 milljónir að gera það upp.
En, Arnbjörg Hlíf segir að þið hafið boðið henni slikk fyrir íbúð hennar. „Hún á íbúð sem er 66,7 fermetrar. Við buðum henni 28,5 milljónir. Með framkvæmdum eru það 33 milljónir sem gerir um 520 þúsund kall fyrir fermeterinn, sem mér finnst ekki lágt verð fyrir hús sem þetta á þessum stað.“
Vísir reyndi að ná tali af Arnbjörgu, til að fá nánari skýringar á þessari dramatísku viðureign milli húseigendanna, en það tókst ekki.