Innlent

Auðnutittlingum fækkar

Sveinn Arnarsson skrifar
Auðnutittlingum hefur fækkað nokkuð.
Auðnutittlingum hefur fækkað nokkuð. Fréttablaðið/GVA
Auðnutittlingum hefur fækkað áberandi mikið í görðum landsmanna í vetur eftir frekar góð undanfarin ár. Vetrarfuglatalning Náttúrufræðistofnun Íslands sem haldin er árlega milli jóla og nýárs rennir einnig stoðum undir það að fækkunin sé áreiðanleg.

„Það er örlítil fækkun í nokkrum fuglategundum í görðum landsmanna en mest áberandi er fækkun Auðnututtlinga sem hafa verið mjög algengur gestur síðustu tvo vetur. Nú í ár eru þeir hinsvegar færri og menn taka eftir því,“ segir Guðmundur A Guðmundsson, fuglafræðingur hjá Náttúrufræðistofnun íslands. „Breytingin er nokkuð skörp en líklega er ekkert sem er að gerast nú í vetur sem orsakar fækkunina.“

Auðnutittlingastofninn er nokkuð stór, telur um hundrað þúsund pör. Þeirra aðalfæða eru birkifræ og nóg er af þeirri fæðu í dag. „Því er líklegt að þeim hafi fækkað síðasta vetur þegar lítið var af birkifræjum. Nú er nóg af fæðu fyrir þá,“ segir Guðmundur sem hefur þrátt fyrir þetta litlar áhyggjur af stofninum. „Auðnutittlingur getur orpið oft yfir sumartímann og því þarf ekki að taka langan tíma fyrir stofninn að ná jafnvægi á nýjan leik.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×