Innlent

Fangar oft inni í klefa hjá öðrum föngum

Nadine Guðrún Yaghi skrifar
Fangar á Litla-Hrauni eiga ekki að fara inn í klefa sem samfangar þeirra gista. Slík hegðun telst til agabrota.
Fangar á Litla-Hrauni eiga ekki að fara inn í klefa sem samfangar þeirra gista. Slík hegðun telst til agabrota. Vísir/Heiða

Fangar á Litla-Hrauni fara oft inn í klefa hjá samföngum sínum þrátt fyrir að lög banni það. Þetta segir fangi sem Fréttablaðið ræddi við en hann segir daglegt brauð að sjá fanga inni í klefa hjá öðrum fanga. Ný lög um fullnustu refsinga banna föngum í lokuðum fangelsum að fara inn í aðra klefa en sína eigin. Áður var reglan í reglum fangelsisins. Ástæða reglunnar er sú að í klefum hafa komið upp ofbeldismál.

Tryggvi Ágústsson, deildarstjóri og staðgengill forstöðumanns á Litla-Hrauni, segir að þar til bærir aðilar hafi talið nauðsynlegt að lögfesta regluna. „Það hafa oft komið upp ofbeldisbrot inni í klefum fanganna á undanförnum árum og hygg ég að reglan sé sett til að vernda þá sem minna mega sín.“

Hann segir að reynt sé eftir fremsta megni að framfylgja reglunum en að það hafi reynst erfitt vegna manneklu fangavarða. „Það er ekki stöðug vakt inni á deildunum hjá okkur eins og þekkist annars staðar. Við þyrftum að hafa fleiri fangaverði ef svo ætti að vera. Við erum til dæmis með mun minni mönnun en víða á nágrannalöndunum og því erfitt að fylgja þessu eftir.“

Tryggvi segir að ef fangar verði uppvísir að því að vera inni í öðrum klefum en sínum eigin geti þeir fengið skráð á sig agabrot. „Það er soldið um það að menn fái agabrot eða tiltal fyrir það að vera inni hjá öðrum en við grípum ekki alltaf til hörðustu aðgerða. Við reynum frekar að leiða mönnum fyrir sjónir að vera skynsamir og fara eftir lögunum,“ segir Tryggvi.

Eitt þekktasta málið er varðar ofbeldi í fangaklefa er mál Annþórs Kristján Karlssonar og Barkar Birgissonar en þeir voru ákærðir fyrir að hafa veitt fanganum Sigurði Hólm Sigurðssyni áverka í fangaklefa hans á Litla-Hrauni sem drógu hann til dauða í maí 2012. Málið vakti mikla athygli ekki síst fyrir það hvað rannsókn tók langan tíma. Þeir Annþór og Börkur voru báðir sýknaðir af ákærunni í Héraðsdómi Suðurlands í mars síðastliðnum.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×