Innlent

Kynfræðingar ekki kátir með kynlífspillu

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Lyfið, sem á að auka kynhvört kvenna, kemur fljótlega á markað.
Lyfið, sem á að auka kynhvört kvenna, kemur fljótlega á markað.
Ný pilla, Addyi, sem á að auka kynlöngun kvenna kemur á markað í Bandaríkjunum á næstunni. Ólíkt Viagra, stinningarlyfi fyrir karlmenn, virkar pillan á huglæga þætti en ekki líffræðilega og er því um margt skylt geðlyfi.

Alexander Smárason, yfirlæknir kvennadeildar sjúkrahússins á Akureyri, segir minnkandi kynhvöt alls ekki óalgengt kvörtunarmál kvenna sem koma til kvensjúkdómalækna. „Þær spyrja hvort það sé hægt að gera eitthvað, en í raun er ekki mikið um töfralausnir. Það hafa verið til plástrar og vefjahylki sem auka testósterón en hvorugt fæst á íslenskum markaði. Það þarf að hafa í huga að svo margt getur valdið minnkandi kynhvöt,“ segir Alexander.

Áslaug Kristjánsdóttir kynlífsráðgjafi segir lyfjameðferð við minnkandi kynlöngun ofureinföldun á flóknu vandamáli enda verði minnkuð kynlöngun sjaldan til í tómarúmi og sé yfirleitt sambandsvandamál.

„Kynlöngun er afstætt hugtak og afar persónubundin. Það er eðlilegt að kynlöngun okkar flökti, sé stundum mikil og stundum lítil. Það eru ótal utanaðkomandi þættir sem hafa þar áhrif, svo sem stress, barneignir og ánægja í sambandi,“ segir Áslaug en fagnar því hins vegar að kynlífsvandi kvenna fái umræðu. „Þrátt fyrir það tel ég ekki að lausnin sé fundin og í raun að það sé verið að leita á röngum stað, út frá gróðasjónarmiði frekar en öðru.“

Sigríður Dögg Arnardóttir kynfræðingur hefur kynnt sér lyfið og líst ekki sérlega vel á það. „Niðurstöður rannsókna sýna að tíðni ánægjulegs kynlífs fór úr hálfu skipti í eitt skipti á mánuði. Ánægjulegt, ekki endilega fullnægjandi. Fyrir hvern er verið að gera þetta? Fyrir manninn eða konuna?“ spyr Sigríður Dögg.

Spurð hvort lyfið verði þá nokkuð eftirsótt af konum segir Sigríður Dögg að hætta sé á að búin verði til ímynduð þörf og aukin pressa á frammistöðu kvenna eins og gerst hefur með Viagra hjá karlmönnum.

„Nemandi í 10. bekk sagði mér fyrir nokkru að hann hefði fengið uppáskrifað Viagra hjá lækninum sínum því hann náði honum ekki upp með kærustunni. Svo kom í ljós að ástæðan var tilfinningalegs eðlis.“

Sigríður Dögg segir vandamál kvenna aðallega felast í því að þær þekki ekki sinn eigin líkama nógu vel. „Konur þurfa að stunda sjálfsfróun, þekkja fantasíur sínar og það sem kveikir í þeim. Einnig þurfa þær að gera kröfu um fullnægingu og unað í kynlífi og því er minnkandi kynlöngun oft vandamál sambandsins, ekki bara konunnar. Fyrir utan að það er líka alveg í lagi að hafa litla eða enga kynhvöt ef maður er sáttur við það.“ 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×