Innlent

Rannsókn MAST á sauðfjárdauða enn ekki borið árangur

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Kindur á leið af fjalli.
Kindur á leið af fjalli. vísir/gva
Rannsókn á útbreiddum og óvenjumiklum fjárdauða í vetur og vor hefur enn ekki leitt í ljós hver ástæðan er. Fyrsta áfangaskýrsla Matvælastofnunnar um rannsóknina er kominn á vef stofnunarinnar. Þar eru greind svör við spurningakönnun sem gerð var meðal sauðfjárbænda í gegnum Bændatorg Búnaðarstofu.

Eftir að farið hafði verið í gegnum hana, svör grisjuð og tvöföld svör tekin út, sátu eftir svör frá 311 bændum. Þessir bændur misstu samtals 4.095 kindur í vetur og vor sem er um 4,1% af bústofni þessara bænda. Þetta er um tvöfalt meira en þeir misstu á heilu ári þar á undan. Þetta stemmir í grófum dráttum við fyrri bráðabirgðabirgðatölur sem gerðar hafa verið opinberar.

Dýralæknar tóku blóðsýni á nokkrum bæjum og sendu kindur í krufningu að Keldum, þegar það átti við. Sýnin hafa verið send til Noregs til rannsókna en niðurstöðu úr þeim er ekki að vænta fyrr en í lok þessa mánaðar. Margar þeirra kinda sem krufnar voru drápust úr næringarskorti, þótt þær hafi augljóslega étið fram á síðustu stundu en krufningin hefur ekki varpað skýrara ljósi á orsök vandans. Hjá helmingi svarenda drapst meira en eðlilegt getur talist eða meira en 2%. Hjá 10% svarenda voru afföllin meiri en 8% og hæsta tíðnin var 30%.

Þar sem ekki hefur tekist að finna orsök þessarar aukningar í dauða er nauðsynlegt að halda rannsókninni áfram í haust og næsta vetur í samstarfi Matvælastofnunnar, Tilraunastöðvar Háskóla Íslands að Keldum og Landssamtaka sauðfjárbænda. Það verður væntanlega gert m.a. með nýrri spurningakönnun og með því að fylgjast með ákveðnum búum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×