Innlent

Útilokar ekki að gosið í Holuhrauni hafi orsakað dauða kindanna

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Niðurstaðna úr krufningu kinda sem drepist hafa á dularfullan hátt undanfarin misseri er að vænta um miðja næstu viku. Líkur eru þó á að rannsókn dragist eitthvað á langinn vegna verkfalls BHM. Margrét Katrín Guðnadóttir dýralæknir segist ekki útiloka að gosið í Holuhraunið hafi orsakað dauða ánna. Þá sé það einnig hugsanlegt að féð sé orðið of fitulítið

„Við viljum ekki afskrifa neitt og halda möguleikunum opnum. Við viljum vera opin fyrir hverju sem er og ekki þröngsýn. Við á Íslandi höfum oft haft kalda, leiðinlega og blauta vetur og vor. Við lifum hérna á norðurheimsskautinu og höfum oft haft léleg hey og eldri bændur segjast oft haft léleg hey en aldrei upplifað svona nokkuð,“ sagði Margrét í Bítinu í morgun.

Þolmörkum hugsanlega náð

„Ein hugmyndin var sú að við séum búin að rækta féð okkar alltaf fituminna og fituminna. Hvort við séum komin að einhverjum þolmörkum þar en þetta eru allt bara getgátur og hugrenningar hjá hinum og þessum,“ sagði hún.

Ær hafa drepist í hrönnum víða um land og segja bændur ófremdarástand ríkja. Ær mjólka mjög illa eða ekki neitt með þeim afleiðingum að lömb dafna illa eða drepast. Umfangið er orðið svo mikið að Margrét vill helst ekki vera með getgátur.

„Það er verið að leita leiða til að komast að einhverri niðurstöðu. Það á að fara núna í að safna blóðsýnum og reynslusögum um hvernig bændur hafa upplifað þessar hremmingar. Reyna að skapa eitthvað svona mögulegt case.“

Hlýða má á viðtalið við Margréti í spilaranum hér fyrir ofan.


Tengdar fréttir

Dularfullur fjárdauði um allt land til rannsóknar

Léleg hey hafa verið talin ástæða þess að ær drepast í hrönnum og hundruð lamba komast ekki á legg. Formaður Landssamtaka sauðfjárbænda segir ástandið alvarlegra en fyrr var talið. Rannsókn hefst í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×