Innlent

Yfir tuttugu lömb móðurlaus eftir að fjöldi kinda drapst í óveðri

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Martha Sigríður Örnólfsdóttir, sauðfjárbóndi, þarf nú að fæða yfir tuttugu heimalinga á pelamjólk, eftir að mæður þeirra drápust.
Martha Sigríður Örnólfsdóttir, sauðfjárbóndi, þarf nú að fæða yfir tuttugu heimalinga á pelamjólk, eftir að mæður þeirra drápust. vísir/pjetur
Tugir kinda og lamba druknuðu eða króknuðu í foráttuveðri sem geysaði vestur í Önundarfirði í fyrradag. Á einum bænum þarf nú að fæða yfir tuttugu heimalinga á pelamjólk, eftir að mæður þeirra drápust.

Martha Sigríður Örnólfsdóttir bóndi í Hjarðardal var stödd á Ísafirði þegar hún fékk fyrstu fregnir af ástandinu:

„Þá hringir nágrannakona mín og segir mér að hún haldi að það sé nú allt í vitleysu þarna. Kindurnar séu farnar að húka við ána og jafnvel farnar að fara út í hana til að drekkja sér. Ég bruna af stað og tek með mér lið. Þegar ég kem að þá eru fjórar bara að drukkna við ána, liggja bara í pollum og eru bara að krókna úr kulda. Við sjáum það að við ráðum ekki við neitt, erum ekki með neinar græjur nema dráttarvélina,“ segir Martha.

Hún hafi því hringt í björgunarsveitina á Flateyri en þá er ástandið er orðið þannig að búið er að hækka mikið í ánni.

„Kindurnar eru bara komnar í sjálfheldu. Það þarf því bát og þá kemur björgunarsveit frá Ísafirði og hjálpar okkur að ná þeim kindum sem eru í sjálfheldu og koma restinni af túninu. Svo höfum við verið að finna kindur dauðar hér og þar, fyrir utan tún líka, þannig að þetta eru orðnar rúmlega tuttugu kindur sem hafa dáið í þessu veðri.“

Kindurnar sem drápust voru aðallega fullorðnar og nýbúnar að bera. Martha segir að nokkur lömb hafi drepist en hún sé líklega með eitthvað á milli tuttugu og þrjátíu heimalinga sem nú þarf að gefa pela í allt sumar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×