Innlent

Óskiljanleg hækkun stýrivaxta að mati verkalýðsforingja

Heimir Már Pétursson skrifar
Seðlabankinn hækkaði stýrivexti sína upp í 5,75 prósent í morgun sem er þriðja stýrivaxtahækkun bankans á árinu. Formaður Verkalýðsfélags Akraness segir þessa hækkun óskiljanlega á sama tíma og kjarasamningar hafi ekki þrýst verðbólgunni upp eins og bankinn hafi spáð að þeir myndu gera.

Stýrivextir Seðlabankans voru 4,5 prósent áður en þeir voru hækkaðir fyrst á þessu ári í júní. Bankinn hækkaði vextina svo í annað sinn í ágúst og í þriðja sinn nú í morgun um 0,25 prósentustig. Stýrivextirnir eru nú 5,75 prósent, 1,25 prósentustigi hærri en þeir voru í júní.

Vilhjálmur Birgisson formaður Verkalýðsfélags Akraness segir undarlegt hvernig Seðlabankinn beiti sér.

„Sérstaklega í ljósi þess að verðbólgan hér á landi er í sögulegu lágmarki. Hún er einungis 1,8 prósent núna samkvæmt nýjustu mælingum og hefur verið mjög stöðug um all langa hríð.Þrátt fyrir að við höfum gengið frá kjarasmningum við stóran hluta af íslensku launafólki,“ segir Vilhjálmur.

Í rökstuðningi Seðlabankans segir að spáð sé 4,6 prósenta hagvexti á þessu ári og að innlend eftirspurn muni aukast um 7 prósent á árinu. Þótt verðbólga hafi að undanförnu verið minni en spáð hafi verið og undir markmiði bankans, sem stafi

einkum af meiri lækkun alþjóðlegs hrávöru- og olíuverðs og hækkun á gengi krónunnar  - sem hafi vegið á móti auknum verðbólguþrýstingi af innlendum toga.

Verðbólguhorfur til skamms tíma séu af ofangreindum ástæðum töluvert betri en Seðlabankinn spáði í ágúst en til lengri tíma litið hafi þær lítið breyst. Og það er sú verðbólguspá sem ræður mestu um hækkun stýrivaxtanna.

Vilhjálmur spár Seðlabankans um áhrif launahækkana á verðbólgu einfaldlega ekki hafa ræst. Það hafi til að mynda verið verðhjöðnun í þar síðasta mánuði upp á 0,4 prósent og verðbólga hafi einungis hækkað um 0,1 prósent í síðasta mánuði.

„Þannig að þessi ákvörðun Seðlabankans er gjörsamlega óskiljanleg með öllu. Það er líka alveg með ólíkindum þegar Seðlabankinn er að bregðast við hækkunum á launum launafólks og segja að atvinnulífið eigi í erfiðleikum með að standa straum af þeim launahækkunum sem af eim hlýst spyr ég á móti: Hefur það engin áhrif að hækka álögur á t.d. á heimili og fyrirtæki þessa lands með þessum hætti sem þeir eru að gera,“ segir Vilhjálmur.

En Seðabankinn skýrir einnig vaxtahækkun sína með framistöðu stjórnvalda,  því í  rökstuðningi bankans segir að einnig sé tekið mið af því að frumvarp til fjárlaga feli í sér nokkra slökun á aðhaldi í ríkisfjármálum að teknu tilliti til hagsveiflu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×