Innlent

Útlit fyrir harðan vetur í Sýrlandi

Samúel Karl Ólason skrifar
Mynd/Unicef
Útlit er fyrir harðan vetur í Sýrlandi. Unicef á Íslandi segir að börn þar séu í hættu vegna kuldans. Á ákveðnum fjallsvæðum getur kuldinn orðið farið niður í allt að þrettán gráðu frost í desember og í janúar.

„Þessir mánuðir eru sérstaklega harðneskjulegir fyrir börn,“ segir Dr. Peter Salama, yfirmaður á svæðisskrifstofu UNICEF fyrir Mið-Austurlönd og Norður-Afríku, í tilkynningu frá UNICEF.

„Í köldum veðrum er þeim hættara við að fá öndunarfærasýkingar. Þau eru því miður einnig í hættu þegar fjölskyldur brenna plast eða annan eitraðan efnivið inni í skýlum sínum til að halda á sér hita.“

Helmingur þjóðarinnar hefur þurft að flýja að heiman vegna borgarastyrjaldarinnar sem staðið hefur yfir í tæp fimm ár.

UNICEF mun veita 2,6 milljónum barna í Sýrlandi og í nágrannaríkjum sérstaka aðstoð á næstu misserum. Neyðarsöfnun UNICEF á Íslandi er enn í gangi og hafa safnast 50 milljónir króna hér á landi. Samtökin segja þó að enn sé mikil þörf.

„Það er einstakt að verða vitni að þessum samtakamætti og ánægjulegt að sjá hversu margir hér á landi hafa látið sig málið varða. Öll börn eiga rétt á vernd og það er afar mikilvægt að koma börnum frá Sýrlandi til aðstoðar,“ segir Bergsteinn Jónsson, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi.

„Neyðarsöfnun UNICEF á Íslandi fyrir börn frá Sýrlandi er enn í fullum gangi. Hægt er að leggja sitt af mörkum með því að senda sms-ið UNICEF í númerið 1900 (1.900 krónur) eða styrkja á heimasíðu UNICEF á Íslandi,“ segir í tilkynningunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×