Innlent

Hæstiréttur staðfestir dóm yfir Krumma í Mínus

Birgir Olgeirsson skrifar
Oddur Hrafn Stefán Björgvinsson, betur þekktur sem Krummi í Mínus.
Oddur Hrafn Stefán Björgvinsson, betur þekktur sem Krummi í Mínus. Vísir/Vilhelm
Hæstiréttur Íslands hefur staðfest dóm Héraðsdóms Reykjaness yfir Oddi Hrafn Stefáni Björgvinssyni, betur þekktum sem Krumma í Mínus, fyrir brot gegn valdstjórninni. Var Krummi dæmdur til tveggja mánaða fangelsisvistar en fullnustu hennar er frestað haldi hann skilorði í tvö ár.

Krummi var sakaður um að hafa sparkað í hægri fót lögreglumanns aðfaranótt 12. júní 2013 á heimili hans. Við aðalmeðferð málsins neitaði hann sök.

Lögreglu hafði borist kvörtun frá nágranna hans vegna háværrar tónlistar sem barst frá íbúð hans. Þrír lögreglumenn bönkuðu upp á og báðu Krumma að lækka. Þá sögðust þeir finna kannabislykt úr íbúðinni en hann bauð þeim inn, þar sem hann hafði ekkert að fela, eins og hann orðaði það við aðalmeðferð málsins.

Í dómi Héraðsdóms Reykjaness var Krummi sagður hafa kallað lögreglumennina og sérstaklega einn þeirra „fávita“ og hafi önnur og verri orð fylgt þar á eftir. Var Krummi sagður hafa lækkað tónlistina en þegar lögreglan hafi gert sig líklega til þess að fara út, hafi hann sparkað í fótlegg eins lögreglumannsins, þess sem hann hafði mest beint orðum sínum að. Hafi ekki hlotist af áverki en Krummi var handtekinn og mátt gista fangageymslur lögreglu í framhaldi af því.

Krummi sagði fyrir dómi að lögreglumennirnir hefðu verið dónalegir og með yfirgang.

„Þeir kíkja aðeins inn og eru að litast um,“ sagði Krummi. „Þeir sjá að vinkona mín er þarna inni og um leið og þeir koma inn eru þeir ókurteisir. Þeir eru með leiðindatón og spyrja hana á ensku hvort hún sé að skemmta sér, „Are you having a good time?“ Þetta fór fyrir brjóstið á mér og við byrjum að rífast, ég og lögreglumennirnir.“

Hann viðurkenndi að hafa verið dónalegur og að hafa ýtt við lögreglumann, en sagðist ekki hafa sparkað í neinn.

„Mér fannst tími til kominn að þeir færu, þeir voru búnir að vera með dónaskap og yfirgang við mig og vinkonu mína þarna inni á mínu heimili. Áður en ég veit af er ég síðan bara kominn gólfið, þeir skella mér harkalega niður, tóku mjög fast á mér og handjárnuðu mig harkalega.“



Fleiri fréttir

Sjá meira


×