Innlent

Einn grunaður um innbrot í Fjörð

Nadine Guðrún Yaghi skrifar
Lögreglan handtók mann í tengslum við innbrotið í gær en honum var sleppt í kjölfar yfirheyrslu.
Lögreglan handtók mann í tengslum við innbrotið í gær en honum var sleppt í kjölfar yfirheyrslu. vísir/vilhelm
„Eins og staðan er núna er hann einn grunaður,“ segir Helgi Gunnarsson, rannsóknarlögreglumaður sem fer með rannsókn innbrots í verslunarmiðstöðinni Firði um síðustu helgi.

Lögreglan handtók mann í tengslum við innbrotið í gær en honum var sleppt í kjölfar yfirheyrslu og húsleitar. Maðurinn neitar sök.

Brotist var inn í skartgripaverslun í Firði, en verðmæti þess sem stolið var hleypur á milljónum króna samkvæmt upplýsingum frá rekstraraðilum.

Í tilkynningu frá lögreglunni segir að rannsókn málsins hafi hafist um leið og innbrotið uppgötvaðist að morgni sunnudagsins 2. ágúst. Í kjölfarið fundust föt, sem talið er að innbrotsþjófurinn hafi notað, á tveimur stöðum í miðbæ Hafnarfjarðar en þar fundust einnig umbúðir utan af hluta þeirra skartgripa sem stolið var.

Að sögn Helga er rannsókn málsins í fullum gangi. „Nú er bara að halda rannsókninni áfram og finna út úr því hvort maðurinn sagði sannleikann. Hann liggur enn undir grun en það var ekki talin ástæða til þess að fara fram á gæsluvarðhald,“ segir Helgi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×