Innlent

Segir endurútreikninga TR koma illa niður á öryrkjum

Ingvar Haraldsson skrifar
Halldór segir að breyta þurfi lögum til að einfalda almannatryggingarkerfið.
Halldór segir að breyta þurfi lögum til að einfalda almannatryggingarkerfið. vísir/vilhelm
„Þetta er högg fyrir fólk sem hefur litlar framfærslutekjur,“ segir Halldór Sævar Guðbergsson, varaformaður Öryrkjabandalags Íslands, um árlega endurútreiknga sem Tryggingastofnun sendi frá sér í vikunni.

Tryggingastofnun greiddi 42 prósentum öryrkja og ellilífeyrisþega of háar bætur á síðasta ári og fer nú fram á að fá ofgreiðsluna endurgreidda. Þá greiddi Tryggingastofnun 45 prósentum öryrkja og ellilífeyrisþega of lágar bætur.

Alls skulda 3.319 ellilífeyrisþegar og 2.675 örorkulífeyrisþegar Tryggingastofnun yfir 100 þúsund krónur. Þá eiga 2.717 ellilífeyrisþegar og 3.832 örorkulífeyrisþegar yfir 100 þúsund króna inneign hjá Tryggingastofnun.

Halldór Sævar Guðbergsson
„Flestir örorkuþegar eru að fá 170 til 190 þúsund krónur á mánuði greiddar frá Tryggingastofnun. Það segir sig sjálft ef greiða þarf 100 þúsund krónur eða meira til baka þá kemur það hressilega niður á heimilisbókhaldi hjá fólki,“ segir Halldór.

Þá bætir Halldór við að það komi einnig illa við fólk að hafa fengið vangreiddan lífeyri. „Það er alveg sama hvort það er of- eða vangreiðsla. Það er slæmt að það komi svona eftir á. Fólk þarf á þessum aurum sem það er að fá til baka frá Tryggingastofnun að halda fyrr á árinu,“ segir hann.

Halldór segir kerfið flókið og að erfitt geti verið fyrir fólk að átta sig á því hvort það hafa fengið van- eða ofgreitt. Það eigi sérstaklega við þá sem nýkomnir séu á örorku. „Það er eitt frítekjumark fyrir fjármagnstekjur, annað fyrir lífeyristekjur og þriðja fyrir atvinnutekjur,“ segir Halldór. Best færi á því ef kerfið yrði einfaldað og dregið yrði úr skerðingum.

Í svari við fyrirspurn Fréttablaðsins segir Tryggingastofnun að það sé á ábyrgð lífeyrisþega sjálfra. Hins vegar geti verið erfitt fyrir þá að áætla fjármagnstekjur nákvæmlega. Þá sé fólk í auknum mæli að vinna tímabundna vinnu auk þess að eingreiðslur frá lífeyrissjóðum séu algengari eftir að skylt varð að sækja um hjá lífeyrissjóðum áður en sótt er um hjá Tryggingastofnun. Þá sé algengara að fólk leigi húsnæði.

Halldór segir þrátt fyrir allt ekki við Tryggingastofnun að sakast. Stofnunin sé að framfylgja lögum sem sett hafi verið af stjórnmálamönnum. Það sé þeirra að breyta kerfinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×