Innlent

Afnám stuðnings við innlendan landbúnað bætir velferð

Fanney Birna Jónsdóttir skrifar
Skýrsluhöfundar um landbúnaðarkerfið telja brýnt að talsmenn neytenda fái pláss við borðið.
Skýrsluhöfundar um landbúnaðarkerfið telja brýnt að talsmenn neytenda fái pláss við borðið. vísir/vilhelm
Afnám eða lækkun stuðnings við landbúnað gæti ógnað fæðu- eða matvælaöryggi en á sama tíma myndi velferð samfélagsins í heild batna. Þetta er meðal þess sem fram kemur í nýrri skýrslu fimm viðskiptafræðinema við Háskólann á Bifröst.

Nemendurnir, Aðalheiður B. Sigurdórsdóttir, Guðjón F. Gunnarsson, Jóhannes B. Pétursson, Snorri Guðmundsson og Svanberg Halldórsson, komast að þeirri niðurstöðu að neytendur myndu njóta góðs af slíkum breytingum með auknu vöruúrvali og lægra vöruverði en hætta sé á því að staðbundnir erfiðleikar á landsbyggðinni myndu fylgja slíkum breytingum.

„Raddir ólíkra hagsmunaaðila hafa ómað hátt síðastliðin misseri í umræðunni um stuðning við íslenskan landbúnað, en lítið hefur farið fyrir talsmönnum neytenda,“ segir í skýrslunni.

Skýrsluhöfundar sammælast um ágæti íslenskrar landbúnaðarframleiðslu en telja brýnt að endurskoða skilvirkni núgildandi fyrirkomulags. „Það að gagnrýna núverandi stuðningskerfi og óska þess að það verði mótað að nýjum og breyttum tímum þýðir ekki það sama og að vera á móti bændum. Í því samhengi skora skýrsluhöfundar á stjórnvöld að vera leiðandi afl í upplýstri umræðu í þágu samfélagsins,“ segir í skýrslunni.

Telja þau varhugavert að að talsmönnum neytenda eða launþega sé sjaldnast, eða aldrei, boðið til borðs í þau ráð eða nefndir sem móta landbúnaðarstefnu Íslendinga. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×