Innlent

Gagnrýna breytingar í Hafnarfirði harðlega

Stefán Rafn Sigurbjörnsson skrifar
Starfsmenn Fjölskylduþjónustunnar segja hagræðingu þegar hafa skilað sér.
Starfsmenn Fjölskylduþjónustunnar segja hagræðingu þegar hafa skilað sér. Fréttablaðið/Valli
Guðlaug Kristjánsdóttir
Starfsmenn Fjölskylduþjónustu Hafnarfjarðar lýsa yfir þungum áhyggjum af breytingum á nýsamþykktu stjórnskipulagi Hafnarfjarðar.

Í ályktun frá starfsmönnum Fjölskylduþjónustunnar kemur fram að skipulagsbreytingar þjónustunnar undanfarin fimm ár hafi þegar skilað betri þjónustu til bæjarbúa og aukinni hagkvæmni.

Í ljósi fyrri árangurs þjónustunnar er nýju skipulagsbreytingunum mótmælt harðlega.

Fjórum starfsmönnum hefur verið vikið úr starfi, þrír færðir undir önnur svið og ekki fæst ráðið í afleysingastörf fyrir tvo starfsmenn sem eru í fæðingarorlofi.

Starfsmenn fjölskyldusviðs telja að skipulagsbreytingarnar séu illa ígrundaðar og að trúnaður á milli starfsmanna og stjórnenda bæjarins hafi beðið hnekki.

Guðlaug Kristjánsdóttir, forseti bæjarstjórnar Hafnarfjarðar og formaður fjölskylduráðs bæjarins, segir allar ábendingar vel þegnar.

„Ég hef rætt við bæjarstjóra og sviðsstjóra Fjölskylduþjónustunnar og þetta verður bara skoðað. Þau munum setjast niður með starfsfólkinu og það er í góðum farvegi með að ræða málin betur.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×