Innlent

Skoða hvort fangar fái netaðgang

Nadine Guðrún Yaghi skrifar
Ráðuneytið skoðar hvort fangar fái að fara á netið.
Ráðuneytið skoðar hvort fangar fái að fara á netið. Fréttablaðið/E.Ól
Eitt af þeim atriðum sem eru til athugunar í endurskoðun laga um fullnustu refsinga eru heimildir þeirra er afplána refsingu í fangelsum til aðgangs að netinu.

Innanríkisráðuneytið vinnur nú að heildarendurskoðun laganna, en samkvæmt gildandi lögum er föngum bannað að hafa nettengdar tölvur.

Fréttablaðið greindi frá því á dögunum að fangelsismálastjóri, Páll Winkel, og yfirmaður í fangelsinu að Litla-Hrauni, Margrét Frímannsdóttir, vilji bæði að föngum sé heimilt að hafa nettengdar tölvur.

Þá eru þau sammála um að skoða eigi hvort það væri ekki eðlilegur hluti af afplánun að fangar geti haft samband við fjölskyldu og vini á netinu. Þannig gæti dregið úr neikvæðum afleiðingum frelsissviptingar.

Þá var greint frá því að að undanförnu hefur það aukist að svokölluðum netpungum, sem gera fólki kleift að tengjast netinu hvar sem er, sé smyglað inn í fangelsið.

Mikil vinna fer í að fylgjast með því hvort fangar hafi netpung undir höndum og komist þannig á netið í klefum sínum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×