Innlent

Segir vonda tilfinningu fylgja nýja forstjórabílnum og afsalar sér honum

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Orkuveitan keypti 27. febrúar síðastliðinn nýjan bíl í staðinn fyrir Yaris sem forstjórinn hafði haft til umráða fram að því.
Orkuveitan keypti 27. febrúar síðastliðinn nýjan bíl í staðinn fyrir Yaris sem forstjórinn hafði haft til umráða fram að því. Fréttablaðið/Ernir
„Þegar ég fékk bílinn fylgdi því vond tilfinning og hún hefur ágerst,“ segir Bjarni Bjarnason, forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur, í tölvupósti til starfsmanna í gær. Þar kveðst hann hafa afsalað sér 6,6 milljóna króna Mitsubishi tvinnbíl sem fyrirtækið keypti fyrir hann fyrir tæpum mánuði.

„Bílahlunnindi fyrir forstjóra, sem öðrum starfsmönnum standa ekki til boða, eru vont fordæmi. Ég mun því héðan í frá taka bíla hjá bílaþjónustu eða halda akstursbók eftir atvikum þegar ég nota eigin bíl í starfi,“ útskýrir forstjórinn.

Fram kom í Fréttablaðinu í gær að Kjartan og Áslaug Friðriksdóttir, fulltrúar Sjálfstæðisflokks í stjórn Orkuveitunnar, gagnrýndu á stjórnarfundi á mánudag Eirík Hjálmarsson, upplýsingafulltrúa OR, fyrir að hafa ranglega sagt Fréttablaðinu í febrúar að Bjarni forstjóri hefði bíl frá fyrirtækinu í samræmi við ráðningarsamning frá 2011.

Haft var eftir Eiríki í Fréttablaðinu í gær að hið rétta væri að byggt hefði verið á niðurstöðu kjararáðs við ákvörðun bílafríðinda forstjórans. „Beðist er velvirðingar á ónákvæmninni,“ sagði Eiríkur.

Kjartan Magnússon
„Enn reynir upplýsingafulltrúi Orkuveitunnar að afvegaleiða umræðuna um bifreiðahlunnindi forstjóra fyrirtækisins,“ svarar Kjartan. Áður en Bjarni var ráðinn sem forstjóri hafi náðst full samstaða um það í stjórn OR að afnema öll bílafríðindi. Sú ákvörðun hafi ekki verið afturkölluð, að minnsta kosti ekki af stjórn fyrirtækisins, fyrr en í janúar þegar meirihluti stjórnar ákvað að kaupa nýjan bíl fyrir forstjórann.

„Þegar ákveðið var árið 2011 að miða við úrskurð kjaradóms um laun forstjóra Landsvirkjunar, sneri sú ákvörðun að launatölunni. Ég fullyrði að það var ekki ætlun neins stjórnarmanns á þessum tíma að koma á bílafríðindum að nýju í þágu eins starfsmanns fyrirtækisins þvert á fyrri ákvörðun,“ segir Kjartan. „Stóð ég að minnsta kosti í þeirri trú að forstjóri hefði ekki bifreið til einkaafnota frá fyrirtækinu og frétti ekki hið gagnstæða fyrr en í nóvember síðastliðnum, en þá hafði forstjórinn haft bifreiðina til umráða í rúmt ár.“

Eiríkur Hjálmarsson
Í fyrrnefndum tölvupósti, sem sjá má neðst í fréttinni, kveðst Bjarni hafa átt rétt á bílnum. Hann hafi borið sína túlkun á niðurstöðu kjararáðs undir stjórnarformann og formann starfskjaranefndar OR. Þeirra skilningur hafi verið sá sami. „Að ég fengi bíl til umráða, samkvæmt ráðningarsamningi, var því ekki háð samþykki stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur því rétturinn var innifalinn í upphaflegum ráðningarsamningi mínum,“ segir forstjórinn.

„Slíkt fyrirkomulag þekkist hjá ýmsum fyrirtækjum, þar á meðal borgarfyrirtækjum, en þá finnst mér líka eðlilegt að öllum stjórnarmönnum sé fullkunnugt um slík fríðindi yfirmanna í stað þess laumuspils sem þarna átti sér stað,“ segir Kjartan Magnússon.


Tengdar fréttir

Telja OR hafa sagt ósatt um forstjórabíl

Sjálfstæðismenn í stjórn Orkuveitunnar segja upplýsingafulltrúa fyrirtækisins hafa sagt Fréttablaðinu ranglega frá því að í samningi frá 2011 væri ákvæði um afnot forstjóra af bíl frá OR. Upplýsingafulltrúinn segir slíkt ákvæði vera í úrskurði frá kjararáði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×