Innlent

Telja OR hafa sagt ósatt um forstjórabíl

garðar örn úlfarsson skrifar
Launahækkun og nýr bíll
---- Fréttablaðið sagði frá starfskjörum forstjóra Orkuveitunnar 28. febrúar síðastliðinn.
Launahækkun og nýr bíll ---- Fréttablaðið sagði frá starfskjörum forstjóra Orkuveitunnar 28. febrúar síðastliðinn.
Kjartan Magnússon og Áslaug Friðriksdóttir, stjórnarmenn í Orkuveitu Reykjavíkur, segja Eirík Hjálmarsson, upplýsingafulltrúa fyrirtækisins, hafa gefið Fréttablaðinu rangar upplýsingar um bílafríðindi Bjarna Bjarnasonar forstjóra.

Í bókun Kjartans og Áslaugar á stjórnarfundi í OR í gær segjast þau gera alvarlega athugasemd við ummæli upplýsingafulltrúans í Fréttablaðinu 28. febrúar síðastliðinn.

Kjartan Magnússon
„Í frétt um launakjör forstjóra Orkuveitunnar kom fram að fulltrúi Sjálfstæðisflokksins hefði bókað á stjórnarfundi 26. janúar síðastliðinn að honum hefði ekki verið kunnugt um það fyrr en í nóvember 2014 að forstjórinn væri á bifreið frá fyrirtækinu.

Upplýsingafulltrúinn segir í þessu sambandi að afnot af umræddri bifreið hafi verið í ráðningarsamningi forstjórans frá 2011 en ekki verður annað séð en þær upplýsingar séu rangar,“ segir í bókuninni.

Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins sem vísað er í er Kjartan Magnússon.

Vitna Kjartan og Áslaug í ráðningarsamning Bjarna þar sem segir að OR skuli endurgreiða forstjóranum sannanlegan kostnað sem hann kunni að hafa af akstri eigin bifreiðar í þágu fyrirtækisins og að hann skuli þá halda akstursbók. Einnig að forstjórinn eigi ekki að njóta frekari launa eða starfskjara en þeirra sem tilgreind eru í samningnum.

Bjarni Bjarnason
„Af framangreindu er ljóst að upplýsingafulltrúi fyrirtækisins gaf útbreiddasta dagblaði landsins rangar upplýsingar um ákvæði ráðningarsamnings forstjóra viðvíkjandi bílafríðindum hans, gagngert í þeim tilgangi að bera brigður á bókun fulltrúa Sjálfstæðisflokksins um málið. Er óskað eftir því að upplýsingafulltrúinn komi leiðréttingu á framfæri við Fréttablaðið,“ segir í bókuninni.

„Þetta er rétt hjá stjórnarmanninum að ákvæðið er ekki í ráðningarsamningnum heldur í þeim úrskurði kjararáðs sem samningurinn byggir á. Beðist er velvirðingar á ónákvæmninni,“ segir Eiríkur Hjálmarsson við Fréttablaðið.

Eiríkur vitnar til ráðningarsamningsins þar sem segir: „OR og BB hafa samið sín á milli að laun forstjóra skuli að jafnaði miða við ákvörðun kjararáðs um laun forstjóra Landsvirkjunar, eftir því sem við á.“

Eiríkur Hjálmarsson
Þá vitnar upplýsingafulltrúinn í úrskurð kjararáðs þar sem segir að kjósi forstjórinn að halda bifreiðahlunnindum sínum skuli draga verðmæti þeirra samkvæmt mati ríkisskattstjóra frá heildarlaunum.

„Það var á þessum grunni að forstjóri valdi, að höfðu samráði við stjórnarformann og formann starfskjaranefndar, að fá Toyota Yaris til umráða, enda drógust þau hlunnindi frá launum hans,“ segir Eiríkur Hjálmarsson.

Svar frá Orkuveitu í febrúar

„Um heimild til afnota af bifreið var samið í upphaflegum ráðningarsamningi stjórnar við forstjóra í ársbyrjun 2011. Forstjóri átti þann rétt að velja hvort hann væri á bíl frá Orkuveitunni eða ekki. Hlunnindaandvirði bílsins dróst frá launum hans.“

Úr svari sem upplýsingafulltrúi OR sendi til Fréttablaðsins 26. febrúar 2015.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×