Enski boltinn

Tilraunin Rodgers fullkomnuð gegn United?

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Liverpool hefur ekki tapað leik síðan það steinlá gegn Manchester United á Old Trafford fyrir þrettán umferðum.
Liverpool hefur ekki tapað leik síðan það steinlá gegn Manchester United á Old Trafford fyrir þrettán umferðum. Fréttablaðið/Getty
Stórleikur helgarinnar í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta fer fram á Anfield á morgun klukkan 13.30 þegar erkifjendurnir Liverpool og Manchester United mætast. Með sigri kemst Liverpool upp fyrir United í fjórða sæti deildarinnar, en tveimur stigum munar á liðunum fyrir leikinn.

Þetta er mjög athyglivert í ljósi stöðu liðanna þegar þau mættust fyrir þrettán umferðum síðan. Þá vann United öruggan 3-0 sigur sem markaði vissan lágpunkt fyrir Liverpool-liðið. Það var þá að tapa fjórða leiknum af síðustu sjö í deildinni og var með 21 stig í tíunda sæti.

Sagan var allt önnur hjá lærisveinum Louis van Gaal á þeim tíma. Sigurinn á Liverpool var sá sjötti í röð í deildinni og flaug liðið hátt í þriðja sæti með 31 stig, tíu stigum meira en erkifjendurnir í Liverpool sem voru ekki í umræðunni um Meistaradeildarsæti.

Tapið á Old Trafford voru þó viss tímamót hjá Liverpool-liðinu og reyndar frekar stór. Brendan Rodgers mætti þar til leiks með 3-4-3-kerfið sem gekk ekki upp í Manchester en hefur svínvirkað síðan þá.

Síðan Liverpool tapaði fyrir United á Old Trafford hefur liðið unnið tíu leiki af þrettán í deildinni, gert þrjú jafntefli og ekki tapað einum einasta. Það hefur innbyrt flest stig allra liða yfir þessa þrettán leiki eða 33 talsins. Liverpool er einfaldlega besta liðið á Englandi í síðustu þrettán leikjum.

Nú er sagan önnur en var þá hjá United. Eftir sigurinn á Liverpool er liðið vissulega búið að vinna sjö leiki, þar af þrjá síðustu, en það er einnig búið að gera fjögur jafntefli og tapa tveimur. United er í fimmta sæti yfir stigasöfnun í síðustu þrettán umferðum með 25 stig, átta stigum minna en Liverpool.

Liverpool var ekkert alslæmt í 3-0 tapinu á Old Trafford. Eins og svo oft áður dró David De Gea United-menn að landi með frábærri frammistöðu, en nú fáum við að sjá svart á hvítu hvert Liverpool-liðið er komið með nýja kerfið hans Brendans Rodgers að vopni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×