Innlent

Segir erfitt að sanna ásetning vegna klámvæðingar

Sveinn Arnarsson skrifar
Hildur Fjóla Antonsdóttir rannsakaði viðhorf fagaðila innan réttarvörslukerfisins til nauðgunarmála.
Hildur Fjóla Antonsdóttir rannsakaði viðhorf fagaðila innan réttarvörslukerfisins til nauðgunarmála.
Klámvæðingin hefur haft þær afleiðingar í samfélaginu að erfitt getur reynst að sanna ásetning ákærðra í kynferðisafbrotamálum fyrir dómstólum. Þetta er mat Hildar Fjólu Antonsdóttur sem gerði rannsókn á viðhorfum fagaðila til meðferðar nauðgunarmála innan réttarvörslukerfisins.

Af viðtölum við saksóknara má skilja að aukin klámvæðing í íslensku samfélagi og klámneysla ungra einstaklinga geri það að verkum að mörkin milli kynlífs og ofbeldis séu mjög óskýr.

Í rannsókn Hildar Fjólu er stuðst við viðtöl við einstaklinga sem koma að þessum málum í starfi sínu. Margir viðmælenda töldu sig merkja breytingu á hegðun fólks og áhrif kláms vera augljós meðal ungra einstaklinga. Sumir viðmælenda í rannsókninni töldu sig sjá fjölgun á brotum þar sem brotaþoli og sakborningur kynnast á samskiptamiðlum þar sem eldri karlmenn nálgast ungar stúlkur.

Ingibjörg Elíasdóttir, lögfræðingur hjá Jafnréttisstofu, segir það alvarlegt ef rétt sé. „Það er alveg ljóst að þetta þarf að skoða betur. Í rannsókn Hildar Fjólu eru tekin viðtöl við sérfræðingana í málaflokknum, saksóknara og verjendur, einstaklinga sem eru í miklum samskiptum við þolendur og gerendur. Þessi lýsing rímar að einhverju leyti við þá tilfinningu sem maður hefur og það sem maður heyrir í umræðunni,“ segir Ingibjörg.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×