Innlent

Með kíló af kókaíni í hljóm­flutnings­græjum í Leifsstöð

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Söluvirði efnanna er rúmlega 40 milljónir króna.
Söluvirði efnanna er rúmlega 40 milljónir króna. Vísir
Rúmlega þrítug portúgölsk kona hefur verið ákærð fyrir stórfellt fíkniefnalagabrot með því að hafa miðvikudaginn 30. september síðastliðinn reynt að koma með tæplega eitt kíló af kókaíni til landsins. Í ákæru segir að efnin hafi verið ætluð til söludreyfingar hér á landi í ágóðaskyni.

Í greiningu sem fram hefur farið á efninu er ætlað að hægt sé að framleiða um 2,7 kíló af kókaíni með styrkleika 29 prósent. Konan kom til landsins með flugi Icelandair frá London en efnin voru falin í farangri hennar, nánar tiltekið pökkuð inn í hljómflutningstæki, hátalara og bassabox.

Ef miðað er við síðustu könnun SÁÁ á götuverð fíkniefna má áætla að söluvirði efnanna sé rúmlega 40 milljónir króna. Málið er til meðferðar við Héraðsdóm Reykjaness.

Tvö kíló tekin mánuði fyrr

Mánuði áður en konan var tekinn var 39 ára gamall Brasilíumaður tekinn með tvö kíló af kókaíni í ferðatösku sinni í Leifsstöð. Vísir hefur fjallað um málið en maðurinn hefur setið í gæsluvarðhaldi undanfarna mánuði eins og konan.

Við aðalmeðferð málsins á dögunum gaf maðurinn skýrslu en óhætt er að segja að frásögn hans um tildrög þess að hann kom til Íslands hafi verið nokkuð skrautleg. Blaðamaður Vísis sat aðalmeðferðina og má lesa nánar um hana hér.

Virði efnisins sem maðurinn reyndi að flytja til landsins er um 54 milljónir króna. Á um mánuði var því lagt hald á kókaín í Leifsstöð sem selja mætti á götum Reykjavíkur fyrir tæplega hundrað milljónir króna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×