Enski boltinn

Leikmenn brenna út á tveimur árum hjá Mourinho

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir/Getty
Fabio Capello, fyrrum landsliðsþjálfari Englands, hefur ekki mikið álit á þjálfunaraðferðum Jose Mourinho, knattspyrnustjóra Chelsea.

Capello segir að aðferðir Mourinho dugi aðeins í skamman tíma og að leikmenn undir hans stjórn brenni út á aðeins tveimur árum.

Chelsea varð Englandsmeistari í vor en hefur farið illa af stað á núverandi tímabili. Liðið er með átta stig eftir átta umferðir og í sextánda sæti ensku úrvalsdeildarinnar.

Stjórn Chelsea stendur við Mourinho þrátt fyrir 3-1 tap fyrir Southampton um helgina og staðfesti það í yfirlýsingu á mánudag.

„Leikmenn hjá Mourinho brenna út á einu og hálfu ári - tveimur árum í mesta lagi,“ sagði Capello í viðtali á Fox Sports. „Ég hafði heyrt af því þegar hann var hjá Real Madrid og nú höfum við fengið það staðfest í London.“

„Chelsea hefur saknað manna eins og Thibaut Courtois en þjálfarinn hefur líka gert taktísk mistök og er ekki að undirbúa sig sérstaklega vel fyrir leiki þetta tímabilið.“

Capello var síðast landsliðsþjálfari Rússlands en var rekinn úr því starfi í sumar. Hann hefur áður þjálfað Inter Milan, Real Madrid, Roma og Juventus með góðum árangri.


Tengdar fréttir

Ólafur Páll: Mourinho er að missa tökin á starfinu

Strákarnir í Messunni ræddu framtíð Jose Mourinho, knattspyrnustjóra Chelsea, eftir sérkennilegt viðtal sem hann veitti eftir 1-3 tap gegn Southampton um helgina en þeir voru á því að hann væri kominn út á hálann ís.

Mourinho: Vill enga strúta hjá félaginu

Jose Mourinho, knattspyrnustjóri Chelsea, segir að leikmenn sínir geti ekki stungið hausinum í sandinn til að fela sig líkt og strútar gera eftir slakt gengi undanfarnar vikur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×