Innlent

Ásgerður Jóna hjólar í gagnrýnendur Fjölskylduhjálpar: „Það er alltaf eitthvað skítkast út í okkur“

Bjarki Ármannsson skrifar
Ásgerður Jóna Flosadóttir, formaður Fjölskylduhjálpar Íslands, segir það sárt að lesa gagnrýni á samtök sín á samfélagsmiðlum vegna ákvörðunar um að veita ekki íbúum í Hafnarfirði né Kópavogi matargjafir um þessi jól. Hún lét gagnrýnendur samtakanna heyra það í viðtali í sjónvarpsþættinum Eyjunni á Stöð 2 í dag.

„Til þess að allir fengju núna aðstoð um jólin sem þurfa á henni að halda, ákváðum við að fókusera svolítið betur á þetta,“ sagði Ásgerður. „Við hjálpum Kópavogsbúum og Hafnfirðingum tólf mánuði á ári og höfum gert það í tólf ár. Við erum ekki að mismuna neinum.“

Í ár ákvað Fjölskylduhjálp að veita ekki matargjafir til íbúa Hafnarfjarðar og Kópavogs, þar sem sveitarfélögin styrkja ekki samtökin. Voru þeir íbúar hvattir til að snúa sér til mæðrastyrksnefnda í sínum sveitarfélögum.

„Ég vil taka það fram að Reykjavík hefur stutt okkur og við erum afskaplega þakklátar fyrir það,“ sagði Ásgerður. „En við erum að hjálpa fleiri hundruð fjölskyldum í Kópavogi og í Hafnarfirði í hverjum einasta mánuði. Allt árið um kring. Og við fáum þvílíka gagnrýni fyrir þetta að við liggjum eiginlega bara sárar.“

Frá matargjöf Fjölskylduhjálpar Íslands.Vísir/GVA
Þjóðin veit ekki af hárgreiðslustofunni

Eftir að hafa sérstaklega tekið fyrir mál Kópavogs og Hafnarfjarðar, vék Ásgerður tali sínu að gagnrýnendum samtaka hennar almennt og kom víða við.

„Það eru allir að segja að Fjölskylduhjálp sé einkafyrirtækið hennar Ásgerðar,“ sagði hún. „Það er alltaf verið að persónugera þetta. En Guð hjálpi mér, ef fólk vildi bara hafa samband við Ríkisskattstjóra og sjá lögin. Lögin kveða á um það hjá okkur að ef við hættum starfsemi fara allar eigur til þess góðgerðafélags sem þarf á því að halda á þeim tímapunkti. Ég myndi halda það að miðað við alla okkar starfsemi – Það er ein manneskja á launum, ég fór á laun eftir að hafa verið launalaus í níu mánuði, við erum með gjaldkera utan stjórnar, við erum með bókara utan stjórnar og endurskoðanda. Það er alltaf verið að vera með eitthvað skítkast út í okkur en við erum eina líknarfélagið á Íslandi, við erum búin að vera með opið bókhald frá upphafi og fólk getur komið og flett fylgiskjölum hjá okkur.“

Ásgerður hélt áfram og sagði að ef afkastageta hjálparsamtaka væri mæld, myndi Fjölskylduhjálp koma sérstaklega vel út.

„Við erum til dæmis með hárgreiðslustofu. Þjóðin veit það ekki. Við klipptum fjögur hundruð hausa í fyrra.“

Séra Bjarni Karlsson, sem einnig var gestur í Eyjunni, sagði að eldræðu Ásgerðar lokinni að hann vildi hafa hana sér við hlið ef hann færi einhvern tímann í stríð og líkti henni við fallbyssu. Innslag Eyjunnar í heild sinni má sjá í spilaranum hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×