Innlent

„Þetta er bara eins og í Austurríki"

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Skíðafólk hvílir sig hér á milli salíbuna í brekkum Bláfjalla.
Skíðafólk hvílir sig hér á milli salíbuna í brekkum Bláfjalla. Vísir/Vilhelm
Fyrsta opnunarhelgin í Bláfjöllum á þessum vetri hefur verið róleg. Færri hafa lagt leið sína á svæðið en oft áður en rekstarstjórinn segir aðstæður þó með besta móti. Skíðasvæðið í Bláfjöllum var opnað á föstudaginn. Einar Bjarnason rekstarstjóri skíðasvæða höfuðborgarsvæðisins er í Bláfjöllum núna.

„Þetta hefur bara gengið mjög vel. Það er ekkert rosaleg mæting sem við áttum alveg eins von á á aðventunni,“ segir Einar en bætir við að það kvarti þó engin. Þetta hafi verið góð „generalprufa“ og þá hafi kortasala farið vel af stað.

Einar segir að síðustu ár hafi yfirleitt tekist að opna skíðasvæðið í Bláfjöllum fyrir jól.

„Frá 2008 höfum við verið að opna eiginlega alltaf fyrir jól, misjafnlega snemma. Stundum höfum við náð að opna í nóvember og svo stundum í desember. Þannig að þetta er búið að vera miklu stabílla, sérstaklega þessar snjógirðingar sem eru komnar í fjallið. Þær eru búnar að hjálpa okkur mikið við að opna fjallið.

Einar telur að fjöldi gesta í gær hafi ekki farið yfir fimmtán hundruð en á góðum dögum mæta allt að sjö þúsund manns í Bláfjöll.

„Þetta er rólegur dagur og kannski hefur það áhrif að Kóngurinn, nýjasta stólalyftan, hún er biluð vegna eldinga og við fáum ekki varahluti fyrr en á þriðjudaginn. Hún er náttúrulega helmingi hraðari á leiðinni upp en gamla lyftan þannig að fólk er kannski bara orðið svo góðu vant að það bara kemur ekki fyrr en hún er komin í lag.

Hann segir skíðafærið mjög gott á svæðinu í dag.

„Þetta eru algjörlega frábærar aðstæður hérna. Færið, fimm stiga frost. Þetta er bara eins og í Austurríki, verður ekkert betra en þetta," segir Einar Bjarnason

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×