Arsene Wenger, knattspyrnustjóri Arsenal, er hvorki mikill vinur Jose Mourinho eða áhugamaður um það sem er í gangi á Brúnni.
Blaðamaður The Mirror spurði Arsene Wenger um álit hans á máli Jose Mourinho og liðslæknisins Evu Carneiro þegar Wenger hélt blaðamannafund fyrir leik Arsenal og Manchester City um helgina.
Eva Carneiro fær ekki lengur að vera í kringum leiki og æfingar Chelsea eftir að Jose Mourinho var mjög ósáttur með hana í 2-2 jafnteflinu á móti Swansea í fyrstu umferð.
Mourinho sakaði Evu um að hafa lítinn leikskilning og kallaði það barnalega hegðun þegar hún fór inn á völlinn til að huga að Eden Hazard í uppbótatíma. Chelsea-liðið var þá þegar orðið manni færri þar sem að markvörðurinn Thibaut Courtois fékk rautt spjald.
„Fótbolti er nógu erfiður svo að þú gerir hann ekki enn erfiðari með því að allir í og kringum liðið standi ekki saman. Vandamálið er traust og það er samheldnin sem býr til styrkinn innan liðsins," sagði Arsene Wenger.
„Þú ert að tala um þessa frétt af Chelsea-liðinu. Ég hef ekkert verið að fylgjast með henni því ég hef í fyrsta lagi engan áhuga á því sem gerist hjá Chelsea og í öðru lagi eru reglurnar alveg skýrar um að það er dómarinn sem gefur læknaliðinu leyfi að koma inn á völlinn," sagði Wenger.
Wenger vann Mourinho í fyrsta sinn þegar Arsenal tryggði sér Samfélagsskjöldinn á dögunum en Arsenal-liðið fylgdi því síðan eftir með því að tapa á móti Aston Villa í fyrstu umferð ensku úrvalsdeildarinnar.
Wenger um Evu og Mourinho: Hef engan áhuga á því sem gerist hjá Chelsea

Tengdar fréttir

Yfirmaður heilbrigðismála hjá FIFA kemur Evu Carneiro til varnar
Yfirmaður heilbrigðismála hjá FIFA segir að knattspyrnustjóri eigi ekkert að skipta sér af störfum lækna liðsins, það sé skylda þeirra að hlúa að leikmönnum séu þeir meiddir.

Mourinho ætti að biðja hana afsökunar
Sú ákvörðun Jose Mourinho, knattspyrnustjóra Chelsea, að banna lækni Chelsea-liðsins, Evu Carneiro, að koma nálægt liðinu á æfingum, leikjum eða á hóteli liðsins, hefur vakið upp hörð viðbrögð á Englandi.

Eva fær ekki lengur að koma á völlinn með Chelsea
Vinsælasti læknirinn í enska boltanum fær ekki lengur að koma á völlinn með Chelsea-liðinu.