Enski boltinn

Yfirmaður heilbrigðismála hjá FIFA kemur Evu Carneiro til varnar

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Eva hefur verið læknir Chelsea um árabil en hér ræðir hún við Diego Costa.
Eva hefur verið læknir Chelsea um árabil en hér ræðir hún við Diego Costa. Vísir/Getty
Yfirmaður heilbrigðismála hjá Alþjóðaknattspyrnusambandinu, FIFA, hefur komið Evu Carneiro til varnar en hún hefur verið töluvert í umræðunni undanfarna daga eftir að Jose Mourinho, knattspyrnustjóri Chelsea, húðskammaði læknislið sitt fyrir að hafa farið inn á völlinn til að hlúa að Eden Hazard, leikmanni liðsins í 2-2 jafntefli gegn Swansea.

Mourinho var ósáttur að Carneiro skyldi hafa hlaupið inn á völlinn í ljósi þess að Chelsea var aðeins með tíu leikmenn inn á en komi til þess að sjúkraþjálfari hleypur inn á þarf leikmaðurinn að fylgja sjúkraþjálfaranum af velli og bíða eftir leyfi dómara til þess að snúa aftur.

Gerði það að verkum að Chelsea lék með aðeins níu leikmenn í stutta stund en portúgalski þjálfarinn sagði að læknistarfsfólk þyrfti að skilja gang leiksins betur.

Hafa enskir miðlar greint frá því að Mourinho hafi ákveðið að þrátt fyrir að hún sé læknir félagsins að hlutverki hennar verði breytt á næstu dögum. Fái hún ekki að mæta á æfingar liðsins né leiki ásamt því að hún komi ekki á hótel liðsins fyrir leiki. Muni hún aðeins sinna mönnum á stofu sinni á æfingarsvæðinu.

Nú hefur yfirmaður heilbrigðismála hjá Alþjóðaknattspyrnusambandinu, Jivi Dvorak, komið Evu til varnar en hann segir að Mourinho eigi ekkert að hafa með það að segja hvort sjúkraþjálfari sinni leikmanni.

„Það verður að verja aðgerðir læknisins í þessari stöðu og allir sem koma að málinu verða að skilja að læknirinn ráði. Það var óskað eftir þeim og þau fóru réttilega inn á völlinn enda er skylda þeirra að fylgjast með heilsu leikmannana. Knattspyrnustjórinn á ekki að hafa neitt um þetta að segja.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×