Innlent

Meintur meðlimur Devil´s Choice í haldi lögreglu

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Merktir meðlimir Devil's Choice á götum Reykjavíkur. Myndin er úr safni.
Merktir meðlimir Devil's Choice á götum Reykjavíkur. Myndin er úr safni. Mynd/Borgþór Sævarsson
Norskur ferðamaður um fimmtugt, sem lenti á Keflavíkurflugvelli í gær ásamt íslenskum vini sínum, verður sendur aftur til síns heima. Maðurinn var stöðvaður við komuna til landsins í gær á þeim grundvelli að hann væri meðlimur í mótorhjólasamtökunum Devil's Choice. Stundin greindi fyrst frá en Devil's Choice eru opinber stuðningssamtök Hells Angels.

Guðmundur St. Ragnarsson, lögmaður Norðmannsins, segir í samtali við Vísi að íslensk yfirvöld telji að maðurinn sé ógn við almannaöryggi og almannafrið. Það finnist honum einkennilegt.

„Þessi maður hefur ferðast víða án þess að athugasemdir hafi verið gerðar,“ segir Guðmundur og nefnir lönd á borð við Danmörk, Svíþjóð, Belgíu og Spán. Þá sé maðurinn með hreina sakaskrá í Noregi.

Sjá einnig:„Það er búið að taka okkur af lífi án dóms og laga“

Íslenskur vinur mannsins segir í samtali við Stundina að maðurinn hafi ekki verið merktur samtökunum. Þá bætir hann við að samtökin séu ekki lengur starfrækt hér á landi og því ómögulegt að félagi hans hafi ætlað að stunda ólöglega starfsemi. Þvert á móti hafi hann ætlað að skoða íslenska náttúru.

Frá húsakynnum samtakanna hér á landi.
Maðurinn á flugmiða aftur til Noregs á föstudag og verður að óbreyttu í fangaklefa fram að brottför verði hann ekki sendur heim fyrr. Hann hefur ekki verið handtekinn heldur aðeins meinaður aðgangur að Íslandi.

„Þetta er mjög óboðleg aðstaða sem er verið að bjóða fólki upp á,“ segir Guðmundur St. í samtali við Vísi.

Málefni Devil's Choice komust í hámæli hér á landi í október 2013. Þá var meðal annars níu Norðmönnum vísað frá landi við komuna til Íslands. Devil's Choice eru stuðningssamtök Hells Angels, Vítisengla, sem ríkislögreglustjóri hefur skilgreint sem glæpasamtök.

Hugðust meðlimir Devil's Choice kanna stöðu sína eins og fjallað var um í frétt Stöðvar 2 hér að neðan.

Karl Þórðarson, þáverandi formaður samtakanna á Íslandi, sagði aðspurður um tengsl samtakanna í viðtali á Vísi haustið 2013:

„Er það ólöglegt að vera stuðningsklúbbur Hells Angels? Þú ert ekki glæpamaður þótt þú þekkir glæpamann.“

Mótorhjólasamtökin hétu Hog Riders til ársins 2011 þegar ákveðið var að taka upp nafnið Devil's Choice. Urðu samtökin þannig tengd samnefndum samtökum á Norðurlöndunum. Samtökin héldu úti heimasíðu hér á landi á slóðinni Devilschoice.is en þeirri síðu hefur verið lokað.

Viðbragða hefur verið leitað hjá Lögreglunni á Suðurnesjum vegna málsins og er von á þeim síðar í dag.


Tengdar fréttir

Sex meðlimir Devil's Choice teknir í Keflavík

Lögreglan á Suðurnesjum hafði afskipti af sex karlmönnum sem komu með flugi frá Noregi á Keflavíkurflugvöll um klukkan fjögur í dag. Mennirnir eru meðlimir í vélhjólagenginu Devil's Choice.

Fleiri mótorhjólamenn á leiðinni

Útlendingastofnun ákvað í gærkvöldi að vísa úr landi sex norskum meðlimum vélhjólagengisins Devils Choice, sem handteknir voru í Leifsstöð við komuna til landsins í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×