Innlent

Tveir Devil's Choice meðlimir í haldi til viðbótar: "Við erum allir með hreina sakaskrá“

Hrund Þórsdóttir skrifar
Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum hefur alls níu Norðmönnum verið vísað úr landi á síðustu tveimur dögum. Um er að ræða meðlimi mótorhjólaklúbbsins Devil's Choice, sem ætluðu að taka þátt í árlegum hátíðahöldum íslenska systurklúbbsins um helgina. Sjö til viðbótar voru teknir til skoðunar við komu þeirra til landsins í dag, þar af eru tveir enn í haldi og er líklegt að þeir verði sendir burt á morgun.

Karl Þórðarson, talsmaður Devil's Choice, segir þetta fáránlegt.

Af hverju?

„Þetta eru menn sem eru ekki á sakaskrá og hafa verið að koma hingað síðastliðin átta ár án þess að hafa nokkuð af sér gert. Þeir hafa verið til fyrirmyndar, svo við skiljum ekki hvað vakir fyrir yfirvöldum með þessu,“ segir Karl.

Við ákvörðun sína um að vísa mönnunum úr landi studdist Útlendingastofnun við hættumat greiningardeildar Ríkislögreglustjóra, en Karl segir að þar sé ekki minnst orði á Devil's Choice.

Hann segir starfsemina aðeins snúast um mótorhjól en játar því aðspurður að klúbburinn sé vinaklúbbur Hell's Angels, sem hefur verið bendlaður við skipulagða glæpastarfsemi.

Má þá segja að þið leggið blessun ykkar yfir hana?

„Hefur verið sannað að þeir stundi skipulagða glæpastarfsemi? Ég hef ekki vitað til þess,“ segir Karl.

Eru þessi tengsl við Hell's Angels þá ekkert til trafala?

„Þau eiga náttúrulega ekkert að vera það, vegna þess að klúbburinn Devils Choice hefur aldrei verið í glæpum, aldrei verið dæmdur fyrir glæpi og aldrei stundað neitt af því tagi. Við erum allir með hreina sakaskrá.“

Meðlimir klúbbsins ætla að kanna réttarstöðu sína eftir atburði síðustu daga. „Okkur finnst verulega á félögum okkar brotið,“ segir Karl. Hann segir að þegar hafi verið leitað til lögfræðings vegna þessa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×