Innlent

Fleiri mótorhjólamenn á leiðinni

Útlendingastofnun ákvað í gærkvöldi að vísa úr landi sex norskum meðlimum vélhjólagengisins Devils Choice, sem handteknir voru í Leifsstöð við komuna til landsins í gær. Studdist stofnunin við hættumat greiningardeildar Ríkislögreglustjóra, líkt og gert var í máli þriggja meðlima gengisins, sem kom til landsins í fyrradag, en voru sendir úr landi í gærmorgun.

Mennirnir sex, sem handteknir voru í gær, gistu fangageymslur lögreglunnar á Suðurnesjum í nótt og verða sendir aftur til Noregs með fyrstu flugvél héðan. Sex fylgiskonum þeirra var hinsvegar sleppt að lokinni skýrslutöku í gær og fara þær frjálsar ferða sinna.

Samkvæmt heimildum fréttastofu býr lögregla sig undir að fleiri meðlimir gengisins reyni að komast inn í landið í dag, en koma þessara manna tengist fyrirhugaðri hátíð Devils Choice á Íslandi, en þau eru stuðningssamtök Vítisenglanna, sem stjórnvöld hafa skilgreint sem glæpasamtök.  




Fleiri fréttir

Sjá meira


×