Innlent

Sex meðlimir Devil's Choice teknir í Keflavík

Hrund Þórsdóttir skrifar
Lögreglan á Suðurnesjum hafði afskipti af sex karlmönnum sem komu með flugi frá Noregi á Keflavíkurflugvöll um klukkan fjögur í dag. Mennirnir eru meðlimir í vélhjólagenginu Devil‘s Choice sem lögreglan segir tengjast skipulagðri glæpastarfsemi. Mennirnir voru í skýrslutöku þegar haft var samband við lögreglu um sexleytið. Samferðafólk þeirra var tekið til skoðunar, en reyndist ekki hafa bein tengsl við samtökin, svo það fékk að halda för sinni áfram.

Hjá lögreglu fengust þær upplýsingar að líklega yrði send frávísunarbeiðni til Útlendingastofnunar. Ef hún yrði samþykkt yrðu mennirnir líklega sendir með fyrsta flugi til Noregs á morgun. Ekki fengust upplýsingar um hvort mennirnir væru með dóma á bakinu.

Þremur meðlimum norsku samtakanna var í morgun vísað úr landi, eftir að hafa verið stöðvaðir við komu sína hingað til lands í gær. Búist var við talsverðum fjölda Devil‘s Choice meðlima frá Norðurlöndunum hingað fyrir helgina, vegna árlegrar veislu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×