Innlent

Kertasníkir nýtur mestrar kvenhylli

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Búsáhaldajólasveinarnir eru óvinsælastir meðal þjóðarinnar.
Búsáhaldajólasveinarnir eru óvinsælastir meðal þjóðarinnar. vísir/vilhelm
Kertasníkir er langvinsælasti jólasveinninn af íslensku jólasveinunum þrettán. Næst vinsælastur er Stúfur og sá þriðji er Hurðaskellir. Þetta kemur fram í könnun MMR.

Pottaskefill, sem kom til byggða í nótt, er óvinsælasti jólasveinninn. Þétt á hæla hans koma búsáhaldabræður hans, Þvörusleikir og Aska­sleikir.

Jólasveinarnir ná misvel til kynjanna. Kertasníkir er vinsæll hjá báðum kynjum en þá sérstaklega hjá kvenpeningnum. Ríflega helmingur kvenna segir hann vera uppáhaldsjólasveininn. Karlar eru aftur á móti hrifnari af Hurða­skelli og mathákun­um Ketkróki, Bjúgna­kræki og Skyrgámi.

Úrtak MMR var tæplega þúsund Íslendingar sem eru átján ára og eldri. Tæplega sjötíu prósent tóku afstöðu til spurningarinnar en aðrir sögðust ekki eiga uppáhalds jólasvein. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×