Innlent

Icelandair-svikari margsaga fyrir dómi: Gat ekki sýnt fram á nokkur samskipti við margnefndan Juri

Birgir Olgeirsson skrifar
Var maðurinn sakaður um að hafa í tíu skipti frá mars til ágúst í ár, ýmist í félagi við annan óþekktan mann eða einn síns liðs, svikið út farmiða í flug hjá Icelandair, samtals að andvirði 10.138 Bandaríkjadala, eða sem nam 1,3 milljónum króna.
Var maðurinn sakaður um að hafa í tíu skipti frá mars til ágúst í ár, ýmist í félagi við annan óþekktan mann eða einn síns liðs, svikið út farmiða í flug hjá Icelandair, samtals að andvirði 10.138 Bandaríkjadala, eða sem nam 1,3 milljónum króna. Vísir/Valli
Héraðsdómur Reykjaness dæmdi 42 ára gamlan Letta til átta mánaða fangelsisvistar fyrir fjársvik með því að hafa með skipulegum hætti svikið út vörur og þjónustu hjá Icelandair á fimm mánaða tímabili í ár.

Var maðurinn sakaður um að hafa í tíu skipti frá mars til ágúst í ár, ýmist í félagi við annan óþekktan mann eða einn síns liðs, svikið út farmiða í flug hjá Icelandair, samtals að andvirði 10.138 Bandaríkjadala, eða sem nam 1,3 milljónum króna samkvæmt miðgengi Seðlabanka Íslands á kaupdegi hverju sinni. Við greiðslu flugbókana á vef Icelandair gaf maðurinn upp í blekkingarskyni og án heimildar, greiðslukortanúmer sem tilheyrðu greiðslukortum annarra einstaklinga auk þess sem greiðandi hverrar bókunar var ranglega sagður með sama nafn og farþegi, sem í öllum tilvikum líktist nafni Lettans, stafsettu á mismunandi hátt.

Margsaga í skýringum fyrir dómi

Í niðurstöðu dómsins kom fram að Lettinn hefði verið margsaga í skýringum sínum fyrir dómi og hjá lögreglu. Sagði hann við lögreglu hafa keypt miðana af tveimur nafngreindum mönnum, en fyrir dómi nefndi hann aðeins mann að nafni Juri. Sagðist hann hafa hitt Juri á Tenerife og Í Þýskalandi og verið í miklum samskiptum við hann, en vissi þó ekki nein frekari deili á honum né gat hann staðfest neitt um þau samskipti. Í skýrslu lögreglu bar maðurinn hins vegar að hafa hitt umræddan Juri í fyrsta sinn í Þýskalandi áður en hann kom til Íslands þann 8. ágúst síðastliðinn.

Héraðsdómur Reykjaness sagði manninn á engan hátt hafa getað sýnt fram á nokkur samskipti við margnefndan Juri. Sem skýringu á samskiptum sínum við Juri, hafði maðurinn meðal annars borið að hann hafi lítið kunnað á tölvur til þess að panta flugmiða. Héraðsdómur Reykjaness benti hins vegar á að þrátt fyrir vankunnáttu hans í tölvusamskiptum virðist maðurinn ekki hafa verið í neinum vandræðum með að komast í kynni við meintar stúlkur í gegnum Internetið, sem hann bar að hafa ætlað að hitta hér á landi. Þá benti dómurinn á að maðurinn hefði pantað greiðslukort frá Bretlandi í gegnum netið án nokkurra vandkvæða.

Hlotið dóma í Lettlandi, Bretlandi og Þýskalandi

Við ákvörðun á refsingu yfir manninum voru lagðar fram erlendar upplýsingar um fyrri brot hans. Samkvæmt þeim hefur hann sjö sinnum verið sakfelldur í heimalandi sínu og í flestum tilfellum fyrir háttsemi tengda svikum eða fölsun. Þá hafði hann einnig hlotið fangelsisdóm í Bretlandi fyrir að hafa í fórum sínum fölsuð skilríki og fyrir að gefa falskar upplýsingar í því skyni að tryggja sér ávinning eða valda öðrum tjóni.

Einnig hafði maðurinn hlotið tvo dóma í Þýskalandi, fyrir skattsvik og auðgunarbrot.

Var maðurinn dæmdur til átta mánaða fangelsisvistar en fjögurra mánaða gæsluvarðhald var dregið frá dómnum. Þá var hann dæmdur til að greiða Icelandair 993 þúsund krónur í bætur og fjögur hundruð þúsund krónur í málskostnað.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×