Innlent

Komust út úr brennandi sumarbústað af sjálfsdáðum

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Allt tiltækt slökkvilið Brunavarna Rangárvallasýslu var kallað út vegna brunans.
Allt tiltækt slökkvilið Brunavarna Rangárvallasýslu var kallað út vegna brunans. vísir/stefán
Eldur kom upp í sumarbústað skammt frá Seljavöllum austur undir fjöllum upp úr miðnætti í nótt. Tveir menn voru í bústaðnum sem komust að sjálfsdáðum út. Þeir hlutu minniháttar meiðsl.

Allt tiltækt slökkvilið Brunavarna Rangárvallasýslu var kallað út og fóru 10 menn og fjórir bílar á staðinn.

Að sögn Gunnars Eyjólfssonar, varðstjóra hjá slökkviliðinu, var bústaðurinn alelda þegar slökkviliðið kom á staðinn. Um einn og hálfan tíma tók að slökkva eldinn en sumarhúsið er gjörónýtt auk bíls sem stóð við bústaðinn og varð eldinum að bráð. Þá komst einnig eldur í garðhýsi en það féll ekki og er því ekki ónýtt líkt og sumarhúsið.

Gunnar segir líklegast að kviknað hafi í út frá gasi. Gassprenging hafi orðið vegna eldunartækja en gas hafi líkast verið búið að leka út í einhvern tíma. Mennirnir hafi hins vegar ekki áttað sig á því með þeim afleiðingum að sprenging varð þegar þeir reyndu að kveikja á umræddum tækjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×