Innlent

Mikill erill hjá lögreglu vegna ölvunaraksturs

Heimir Már Pétursson skrifar
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafði í nógu að snúast liðna nótt.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafði í nógu að snúast liðna nótt. vísir/kolbeinn tumi
Ungur maður ók léttu bifhjóli á gangandi vegfaranda á gatnamótum Laugavegar og Lækjargötu um kvöldmatarleytið í gær. Sá sem ekið var á slapp með skrekkinn en kenndi eymsla á öðrum fæti.

Skömmu fyrir klukkan þrjú í nótt var ungur ökumaður handtekinn við Reynisvatnsveg eftir að hafa ekið bifreið sinni á ljósastaur.

Í tilkynningu frá lögreglu segir að ökumaðurinn sé grunaður um ölvun við akstur og hafi hann verið vistaður í fangageymslu fyrir rannsókn máls. Bifreið mannsins var flutt af vettvangi með kranabíl.

Í gærkvöldi var tilkynnt um bifreið sem ekið hafði verið á skúr Orkuveitunnar við Stekkjarbakka. Ökumaðurinn og farþegi fóru hlaupandi af vettvangi áður en lögregla kom.

Töluvert margir voru stöðvaðir hist og her um höfuðborgarsvæðið grunaðir um að aka undir áhrifum vímuefna. Til að mynda var ökumaður stöðvaður á Grensásvegi upp úr miðnætti en hann er grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna, aka sviptur ökuréttindum og vörslu fíkniefna.

Þá stöðvaði logregla bifreið á Sæbraut snemma í gærkvöldi eftir að bíllinn mældist á 109 kílómetra hraða þar sem hámarkshraði er 60 kílómetrar. Ökumaðurinn er einnig grunaður um ölvun við akstur og að aka sviptur ökuréttindum að sögn lögreglu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×