Innlent

Íbúafjöldi Blönduóss tvöfaldast á Húnavöku

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Hátíðin var sett á fimmtudagskvöld með bæjargrilli.
Hátíðin var sett á fimmtudagskvöld með bæjargrilli. mynd/facebook-síða Húnavöku
Bæjarhátíðin Húnavaka fer nú fram á Blönduósi. Hátíðin hófst á fimmtudagskvöld og hefur farið vel fram að sögn Sigurðar Jónssonar, varðstjóra hjá lögreglunni í bænum.

Í gærkvöldi var svokallað 16 ára ball í félagsheimilinu sem fór mjög vel fram og segir Sigurður að krakkarnir þar hafi allir verið til fyrirmyndar. Í kvöld er svo ball með Páli Óskari en hann hélt einnig ball á Húnavöku í fyrra. Var það stærsta ball sem þá hafði verið haldið á Blönduósi og má án efa búast við miklum fjölda líka í kvöld.

Arnar Þór Sævarsson, bæjarstjóri Blönduóss, segir að íbúatala bæjarins tvöfaldist á Húnavöku.

„Það búa 900 manns og ætli það komi ekki um 1000 manns í bæinn á hátíðina. Þetta er virkilega skemmtilegt og þjappar bæjarbúum saman. Hér eru allir búnir að skreyta göturnar sínar og gera fínt og svo er auðvitað mikið af brottfluttum Blönduósingum sem koma hingað á hátíðina,“ segir Arnar.

Fjölbreytt dagskrá er í bænum yfir helgina og má þar meðal annars nefna sýningar Sirkuss Íslands, kassabílarallý og sultukeppni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×