Innlent

Hljóp Laugaveginn á undir fjórum klukkutímum: Stefndi á að vinna en bjóst ekki við að setja nýtt met

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Þorbergur kemur hér í mark í dag á nýju meti.
Þorbergur kemur hér í mark í dag á nýju meti. mynd/Laugavegshlaupið
Þorbergur Ingi Jónsson kom fyrstur í mark í Laugavegshlaupinu nú rétt eftir eitt á nýju meti, þremur klukkustundum, 59 mínútum og 13 sekúndum. Þorbergur átti einnig gamla metið sem hann setti í hlaupinu í fyrra en þá fór hann kílómetrana 55 á fjórum klukkutímum og sjö mínútum.

„Ég bjóst alls ekki við þessu og þetta kemur eiginlega bara á óvart. Ég var strax búinn að tapa þremur mínútum á drykkjarstöðinni út af snjónum í byrjun en svo vann ég það til baka því allar aðrar aðstæður voru eins og best verður á kosið, þurrt og vindur í bakið eiginlega alla leið,“ segir Þorbergur í samtali við Vísi.

Hann segir það hafa verið virkilega erfitt og leiðinlegt að hlaupa í snjónum sem var á um átta kílómetra leið í byrjun hlaupsins.

„Ég passaði mig á því að taka ekkert of mikið á því þar svo maður sparaði sig ósjálfrátt.“

Þorbergur segir alltaf hafa stefnt á að vinna hlaupið en hann hafi ekki átt von á því að setja nýtt met út af snjónum. Hann segir hafa skipt miklu að hann sé mun sterkari nú en í fyrra enda hafi hann farið í mörg utanvegahlaup síðan þá.

Fjögur hundruð hlauparar hlaupa Laugaveginn í ár en aldrei hafa verið fleiri þátttakendur. Þegar Vísir náði tali af upplýsingafulltrúa hlaupsins, Önnu Lilju Sigurðardóttur, rétt fyrir klukkan hálftvö var enginn annar hlaupari kominn í mark en von var á öðrum karli innan skamms.

Vilhelm Gunnarsson, ljósmyndari Vísis, náði þessari mynd af Þorbergi á spretti á Laugaveginum í dag.vísir/vilhelm



Fleiri fréttir

Sjá meira


×