Innlent

Um sextíu jarðskjálftar hafa mælst í Langjökli

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Engar tilkynningar hafa borist um að skjálftinn hafi fundist í byggð.
Engar tilkynningar hafa borist um að skjálftinn hafi fundist í byggð. Vísir/Stefán
Um sextíu skjálftar hafa mælst við Geitlandsjökul í Langjökli síðustu sólarhringa. Skjálftahrina stendur enn yfir á svæðinu en stærstu skjálftarnir hafa fundist í byggð.

Fyrir tveimur sólarhringum eða á fimmtudaginn hófst skjálftahrina í Langjökli. Fjöldi skjálfta hefur mælst á svæðinu síðan þá. Sigþrúður Ármannsdóttir, sérfræðingur á sviði jarðvár hjá Veðurstofu Íslands, segir nokkra skjálfta hafa fundist í byggð. „Í gærkvöldi þá kom skjálfti klukkan 22:06. Hann var 2,9 og við fengum tilkynningar frá, það var bæði frá Húsafelli og Hraunfossum og Kleppjárnsreykjum, um að hann hafi fundist. Hálftíma síðar þá var annar sem var 3,0 að stærð. Svo var aftur í nótt klukkan 4:38 þá var skjálfti þarna sem var 3,5,“ segir Sigþrúður. 

Sigþrúður segir að ekki sé talið að hrinan sé fyrirboði um stærri skjálfta. Jarðskjálftahrinan er í vestanverðum Geitlandsjökli sem er í Langjökli. „Við fáum alltaf hrinur þarna annað slagið og það var þarna hrina sem stóð í einhverja daga í júlí 1999 og þar var skjálfti sem var 4,3 að stærð,“ segir Sigþrúður. 

Hún segir ómögulegt að segja hversu lengi hrinan standi en hún sé en í gangi. Þegar hafa um sextíu skjálftar mælst á svæðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×