Innlent

Enn dregst úr flúormengun í grasi í Reyðarfirði

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
vísir/valli
Enn mælist flúor í grasi í Reyðarfirði, en þó töluvert minna en undanfarin tvö ár. Framkvæmdar eru sex mælingar á hverju sumri og er meðaltal þeirra borið saman við viðmiðunarmörk sem sett eru í vöktunaráætlun Alcoa álversins. Mörkin segja til um hvort frekari eftirfylgni og rannsókna sé þörf eða ekki.

Í haust verður safnað sýnum úr heyi sem aflað var á Reyðarfirði í sumar og verður þá hægt að sjá hvert flúorinnihaldið er í þeiri fæðu sem dýrin neyta á ársgrundvelli. Í tilkynningu frá álverinu segir að heysýnin hafi ávallt sýnt lág gildi og því megi reikna með að talan fyrir flúorinnihald í fæðu dýranna komi til með að lækka enn frekar. Engar vísbendingar séu um að flúor í grasi hafi haft áhrif á grasbíta.

Magnús Þór Ásmundsson, forstjóri Alcoa Fjarðaráls, segir í tilkynningunni að ánægjulegt sé að sjá staðfestingu þess hve vel hafi gengið, enda séu umhverfismál og velferð samfélagsins ávallt í fyrirrúmi í stefnu fyrirtækisins. „Starfsfólkið hefur lagt sitt af mörkum til að ná sífellt betri árangri en ytri aðstæður sem við höfum ekki stjórn á, svo sem veður, hafa einnig áhrif á flúor sem mælist í grasi,“ segir hann.

Flúormagn í grasi í Reyðarfirði er 36 prósentum minna nú en árið 2014, en það sumar dró einnig úr flúor miðað við sumarið 2013, eða um 19 prósent. Meðaltal nýliðins sumar var 19,7 míkrógrömm saman borið við 30,8 árið 2014 og 37,8 sumarið 2013. 

Uppfært:

Alcoa bendir réttilega á að flúor mælist alltaf í einhverju magni nálægt öllum álverum. Flúormagnið í Reyðarfirði sé langt undir mörkum. Fyrirsögn fréttarinnar hefur því verið breytt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×