Innlent

Finnbjörn kominn á flot: „Dælingin gekk eins og í sögu“

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Fiskbáturinn Finnbjörn ÍS komst á flot á ný á fjórða tímanum í dag. Skipið sökk í höfninni í Bolungarvík í gærmorgun og gegnu björgunaraðgerðir í gær ekki sem skyldi. Dæling gekk hins vegar eins í sögu í dag að sögn Ólafs Þ. Benediktssonar slökkviliðsstjóra á staðnum.

„Báturinn var ekki nógu þéttur í gær og því unnum við að því í birtingu að þétta hann betur,“ segir Ólafur. Í gærkvöldi og í morgun var unnið að því að útbúa stokk ofan á lestarlúguna svo hægt væri að koma öflugri dælu niður í lestina.

Á sama tíma og dæling úr lestinni hófst var byrjað að dæla úr lúkarnum og stýrishúsinu. Við það lyftist báturinn að framan og fyrir miðju. „Að því loknum komum við dælu niður í vélarrúmið að aftan. Satt best að segja gekk þetta allt eins og í sögu,“ segir Ólafur en eftir að dæling hófst tók um níutíu mínútur að koma skipinu á flot.

Tveir kranar voru notaðir við björgunina en að auki naut slökkviliðið liðsinnis björgunarsveitarmanna í flotgöllum, tækjamanns og kafara. Allt í allt komu rúmlega tuttugu manns að björgun bátsins. Ekki er vitað hvað orsakaði það að skipið sökk en grunur leikur á að lensidæla hafi gefið sig eða að lekið hafi meðfram rifu hjá suðu á skrokki skipsins.

„Ég er fyrst og fremst ánægður og stoltur af því hve vel þetta gekk eftir að þéttingu lauk,“ segir Ólafur að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×