Aðeins níu dagar eru þar til UFC 189, stærsta bardagakvöld ársins, fer fram á MGM Grand-hótelinu í Las Vegas.
Þar verður barist um tvo heimsmeistaratitla; Conor McGregor og Chad Mendes berjast um titilinn í fjaðurvigt og Rory McDonald reynir að hirða beltið af Robbie Lawler í veltivigtinni.
Gunnar Nelson berst á aðalhluta kvöldsins gegn Brandon Thatch, en hann átti upphaflega að berjast við Englendinginn John Hathaway.
Gunnar æfir í Vegas með Conor McGregor, en þeir búa í höll sem kostar mörg hundruð milljónir. Þar æfa þeir og slaka á í aðdraganda bardagans.
Í fyrsta þætti UFC 189 Embedded, vefþáttar sem gerður er fyrir hvert bardagakvöld, sést inn í höllina þegar Conor McGregor kemur heim úr auglýsingaferð frá New York, en Gunnar er einn af þeim sem tekur á móti honum.
Írski vélbyssukjafturinn á sviðið í þættinum eins og alltaf, en hann lætur Jose Aldo, heimsmeistarann sem hætti við að berjast vegna meiðsla, heyra það í viðtali
Þá er fylgst með bardagaköppunum í myndatöku og á kynningu fyrir nýja Reebook-fatnaðinn sem allir verða í eftir að samningar náðust milli íþróttavörurisans og UFC.
Þáttinn má sjá í spilaranum hér að ofan.
