Innlent

Bílstjórinn bað fjölskylduna afsökunar

Birgir Olgeirsson skrifar
Fjölskyldan beið í biðskýli við Vonarstræti þegar bílstjórinn ók fram hjá þeim.
Fjölskyldan beið í biðskýli við Vonarstræti þegar bílstjórinn ók fram hjá þeim. Vísir/Ernir
Bílstjóri hjá Strætó bs. hefur beðið fjögurra manna fjölskyldu afsökunar á að hafa ekki hleypt henni út úr strætisvagni á Hofsvallagötu síðastliðinn föstudag. Samkvæmt heimildum Vísis var bílstjórinn boðaður á fund yfirmanns síns þar sem málin voru rædd. Fór svo að bílstjórinn baðst afsökunar á mistökum sínum og því lokið af hálfu Strætó bs.

Vísir sagði frá málinu á mánudag en atvikið átti sér stað með þeim hætti að fjögurra manna fjölskyldan hafði beðið eftir strætisvagni í biðskýli við Ráðhús Reykjavíkur í Vonarstræti. Þegar vagninn nálgaðist biðskýlið var hann ekki stöðvaður heldur ekið fram hjá fjölskyldunni sem hljóp á eftir honum og gaf merki um að stöðva.

Þegar í vagninn var komið taldi strætóbílstjórinn sig ekki hafa fengið nægjanlega sönnun fyrir því að miðakaup hefðu átt sér stað í gegnum strætó-appið. Þegar sá misskilningur hafði verið leiðréttur upphófust orðaskipti á milli foreldranna og strætóbílstjórans þar sem skipst var á ásökunum um dónaskap.

Þegar komið var á Hofsvallagötu gáfu foreldrarnir bílstjóranum merki um að fjölskyldan ætlaði úr vagninum. Bílstjórinn er sagður hafa stoppað á réttum stað en neitað að opna fyrir fjölskyldunni og hleypa henni út. Þegar fjölskyldufaðirinn bað bílstjórann um að hleypa þeim út á bílstjórinn að hafa tjáð þeim að þau færu ekki fet fyrr en hann hefði rætt við þjónustuver Strætó bs. um hegðun foreldranna.

Er einn farþeganna, ótengdur fjölskyldunni, sagður hafa á þeim tímapunkti heimtað að bílstjórinn hleypti honum út. Á fjölskyldan að hafa nýtt sér tækifærið og komið sér úr vagninum þegar bílstjórinn opnaði fyrir farþeganum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×