Innlent

Vill vita hvað kosti að bjarga Grímsey

Sveinn Arnarsson skrifar
Heiða Kristín Helgadóttir
Heiða Kristín Helgadóttir
Heiða Kristín Helgadóttir, þingmaður Bjartrar framtíðar, hefur lagt fram fyrirspurn til forsætisráðherra um sértækar byggðaaðgerðir til bjargar byggð í Grímsey. Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum í vikunni að ráðast í margvíslegar aðgerðir til þess að bjarga byggðinni í eynni. Fyrirspurn Heiðu Kristínar er tvíþætt. Annars vegar vill hún vita hversu miklum fjárhæðum verður varið til þessara aðgerða og hvort forsætisráðuneytið hafi upplýsingar um að svipaðar aðgerðir hafi borið árangur og snúið við fólksfækkun.

Fréttablaðið hefur áður greint frá því að tillögur nefndar um framtíð byggðar í Grímsey voru metnar um hálfur milljarður árlega í formi aukinna samgangna við eyjuna og sértækan byggðakvóta sem kæmi í hlut Grímseyjar.

„Það sem skiptir mestu máli er að fjármunum úr sameiginlegum sjóði okkar allra sé sem best varið og að svona aðgerðir skili árangri. Mér finnst rétt að spyrja hversu miklir fjármunir fara í þessa sértæku aðgerð til að styrkja byggð í Grímsey og hvert sé markmiðið. Ef fjármunirnir hlaupa á hundruðum milljóna þá þarf það að liggja fyrir,“ segir Heiða Kristín. „Það er mín tilfinning að íslensk byggðastefna sé tilviljanakennd og ekki nægilega markviss. Það er öllum til góða að horfast í augu við það. Ég hefði viljað sjá fjármagni varið til sóknaráætlana landshlutanna í stað þess að skera niður nærri allt fé til þeirra.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×