Innlent

Laugavegshlauparar eiga von á átta kílómetra snjókafla

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Laugavegurinn er ein vinsælasta gönguleið landsins og er alls 55 kílómetra löng.
Laugavegurinn er ein vinsælasta gönguleið landsins og er alls 55 kílómetra löng. Mynd/Laugavegshlaupið
Laugavegshlaupið fer fram á morgun í 19. sinn. Alls eru 429 hlauparar skráðir til keppni í ár, þar af 143 konur og 286 karlar en aldrei hafa fleiri verið skráðir til þátttöku en nú.

Tæplega helmingur þátttakenda, eða 210 manns, koma frá öðrum löndum en Íslandi. Fjölmennastir eru Bandaríkjamenn, eða 65, þá Bretar sem eru 26 talsins og þriðja fjölmennasta þjóðin eru Kanadamenn, alls 18. Hlauparar eru af 29 mismunandi þjóðernum.

Hlaupið hefst við skála Ferðafélags Íslands í Landmannalaugum og endar við skála ferðafélagsins í Húsadal í Þórsmörk. Laugavegurinn er ein vinsælasta gönguleiðin um öræfi Íslands en leiðin er alls 55 kílómetrar. Venjan er að ganga Laugaveginn á fjórum dögum en besti hlaupatíminn í Laugavegshlaupi er 4 klukkustundir og 7 mínútur í karlaflokki og 5 klukkustundir í kvennaflokki.

Veðurspáin fyrir hlaupafólk.Kort/Laugavegshlaupið


Mikil hækkun er á leiðinni og því reynir hlaupið mikið á þátttakendur. Þá má auðvitað búast við öllu af íslenska sumarveðrinu en mikill snjór er á leiðinni og mega hlauparar búast við því að þurfa að hlaupa í snjó í um 8 kílómetra.

Samkvæmt veðurspá sem nálgast má á heimasíðu hlaupsins má búast við 5-8 metrum á sekúndu í upphafi hlaups og allt að 10 metrum á sekúndu á hæsta punkti. Vindur ætti þó að minnka þegar líður á daginn og hlaupið en útlit er fyrir bjartviðri og háskýjahulu. Þá hefur jafnframt dregið úr líkum á þoku svo skyggni ætti að vera gott.

Þorbergur Ingi Jónsson vann hlaupið í fyrra í karlaflokki og Elísabet Margeirsdóttir í kvennaflokki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×